Ingunn Lára segist ekki eiga neina fasta tískufyrirmynd. „Ég hugsa hins vegar oft um persónur og klæði mig eins og þær. Einn daginn er það Norma Desmond í Sunset Boulevard og annan daginn er það Burlington Bertie frá Bow! Ég byrja stundum daginn á því að finna mér karakter og þá finnst mér mikilvægt að klæða mig eins og hann. Ég hef ekkert vit á tísku en ég elska allt leikrænt og persónulegt. Ég er líka mjög hrifin af tískunni í London á níunda áratugnum, svona gangandi listaverkum eins og Leigh Bowery. Já, og ég elska Cambridge Satchel töskuna mína frá London. Ég lét skera fangamark mitt í hana.“

Hversdags fylgir Ingunn fordæmi fjölda Íslendinga og klæðist helst svörtu. „Og svo er ég alltaf til í föt sem ég get vafið utan um mig.“ Hún segist helst kaupa föt í Fatamarkaðinum, Corner Shop og Cos. „Mér finnst líka gaman að kaupa föt á mörkuðum. Og svo í Handprjónasambandinu, ekkert jafnast á við góða lopapeysu.“ Ingunn segist ekki vera með fatadellu. „En ég viðurkenni alveg að þegar ég á pening þá finnst mér gaman að kaupa föt. Akkúrat núna er græna bandapeysan mín í miklu uppáhaldi því hún er geðveikt skemmtileg. Uppáhaldshönnuðirnir mínir eru Ýr Jóhannsdóttir eða Ýrúarí á Íslandi, peysurnar hennar eru afskaplega skemmtilegar og koma á óvart. Á heimsvísu er það Irene Sharaff, búningahönnuðurinn sem hannaði fötin í næstum allar gömlu Hollywood-myndirnar!“

Sokkabuxur eru eitt af því sem Ingunn lætur eftir sér þótt hún eigi nóg af þeim. „En það er reyndar því ég fæ alltaf gat á sama stað. Ég er með fáránlega stóra stórutá.“ Stóra táin hindrar hana þó ekki í að ganga í uppáhaldsskónum sínum. 

„Það eru Irregular Choice skórnir sem ég keypti á Carnaby Street fyrir löngu og verð aldrei leið á.“ Aðspurð segist Ingunn Lára luma á einni skemmtilegri sögu af fatakaupum. „Ég var að leita mér að púkó jólapeysu í Texas árið 2012 og kíkti inn í fjölskyldurekna búð sem seldi alls kyns kjánalegar peysur. Ég var mjög glöð og sagði afgreiðslukonunni að ég væri ótrúlega ánægð með að hafa loksins fundið „ugly Christmas sweater store“. 

Kom í ljós að þetta var eigandinn og henni sárnaði mjög þessi lýsing. Fyrir henni voru þetta mjög vandaðar og alls ekki kaldhæðnislegar peysur með miklum jólaanda. En ég meina … hún var með peysur með mynd af Jesúbarninu að skíra jólasveininn!“

Eins og áður sagði er margt á döfinni hjá Ingunni þessa dagana. „Ég verð plágulæknir og skáld hjá Rauða skáldahúsinu í kvöld í Iðnó! Þemað er dauðasyndirnar sjö og aðalskáld kvöldsins er Sjón! Fram undan eru svo æfingar og sýningar á óperu sem ég skrifa og leikstýri. Hún heitir #bergmálsklefinn og er Twitter-ópera sem verður frumsýnd 25. maí í Tjarnarbíói.“