Það má sannarlega segja að Daníel sé fjölhæfur maður en auk þess að vera með BA gráðu í myndlist og MA í listkennslu þá hefur hann líka lært ljósmyndun í Ljósmyndaskóla Íslands. Daníel hefur einnig lokið framhaldstækni í innhverfri íhugun og stefnir á að klára fimm mánaða kennaranámskeið í tækninni.

Daníel byrjaði að iðka innhverfa íhugun þegar hann var ekki nema 13 ára gamall en hann neitar því ekki þegar hann er spurður hvort það sé ekki svolítið sérstakt að byrja það ungur.

„Ég kynntist þessu af því stjúppabbi minn, Ari Halldórsson, er kennari í innhverfri íhugun. Þegar ég var 13 ára var ég að æfa körfubolta á fullu og þessi innhverfa íhugun kom til tals. Ég spurði Ara hvort innhverf íhugun gæti gert mig að betri körfuboltamanni og hann sagði já. Ég var svo metnaðarfullur í körfubolta og vildi gera allt sem gæti gert mig betri svo ég lærði að íhuga. Þetta var í ágúst 2005 en þá var ég að fara að byrja í 8. bekk í Hagaskóla,“ útskýrir Daníel.

„Ég byrjaði svo á fyrsta degi í Hagaskóla að íhuga tvisvar á dag, maður íhugar í 13 mínútur þegar maður er þrettán ára en svo bætist við ein mínúta á ári þangað til þær eru orðnar 20. Foreldrar mínir voru aldrei að segja mér að íhuga eða hvetja mig til þess. En þetta hjálpaði mér gríðarlega. Ég byrjaði að íhuga, stundum á klósettinu í Hagaskóla en annars heima, áður en ég byrjaði í tíma á morgnana."

Daníel segir að það megi segja að íhugunin hafi hjálpað honum að vinna úr áfalli sem hann varð fyrir í æsku og hún hafi líka hjálpað honum í námi og körfubolta og áhrifin hafi smitast út í daglegt líf.

Daníel hóf ungur að iðka innhverfa íhugun og fjallaði um hana í mastersritgerð sinni í listkennslu.

„Ég veit að námið mitt tók stakkaskiptum í gagnfræðaskóla, meðal annars kannski af því ég var að íhuga, ég varð svona súper nemandi, ég þurfti að hafa minna fyrir því að læra og fá góðar einkunnir og umsagnir fyrir verkefni. Þessi aðferð er svo áhrifarík og hefur verið mikið rannsökuð. Það hefur verið sýnt að hún losar um djúpstæða streitu í taugakerfinu.“

Eftir að Daníel lauk BA-námi í myndlist fór hann í starfsnám hjá hreyfingu innhverfrar íhugunar í Bretlandi og Hollandi. Þar lærði hann meðal annars um stjörnuspeki, ayurveda og siddhi-tækni, sem hann segir að sé stundum kennd við jógískt flug. Daníel lauk seinna MA-námi í listkennslu en lokaverkefnið hans í náminu fjallaði einmitt um innhverfa íhugun.

„Lokaverkefnið fjallaði um innhverfa íhugun og um það hvort hún gæti eflt sköpun sem er einn af sex grunnþáttum menntunar í aðalnámskrá skóla,“ segir Daníel.

„Ritgerðin heitir Fylling í svellandi hug og titillinn er vísun í ljóðið Leiðsla eftir Matthías Jochumsson. Niðurstaðan í ritgerðinni er að innhverf íhugun er leið til að uppfylla betur markmið menntunar um sköpun. Það er hægt að lesa ritgerðina á skemman.‌is.“

Stjörnuspeki smitast í klæðaburðinn

Áhuginn á stjörnuspeki og andlegum málefnum hefur meðal annars smitast yfir í klæðaburð Daníels en á hverjum degi klæðist hann sokkum í ákveðnum lit út frá himintunglunum.
Serbl_Megin Left: „Mánudagur er hvítur því það er tunglið, þriðjudagar rauðir af því það er Mars, miðvikudagar grænir því það er Merkúr, fimmtudagur eru gulir út af Júpíter og föstudagur er frjáls því það er Venus, laugardagar eru bláir því það er Satúrnus og sunnudagur er gull eða appelsínugulur eins og sólin,“ segir hann.

Daníel veltir líka mikið fyrir sér klæðnaði sínum almennt en hann segir að hann hafi ákveðin grunngildi í klæðaburði sem byggjast á klassískri herratísku.

„Það hefur alltaf fylgt mér frá unglingsaldri hugmyndin um að fara á móti straumnum. Það er einkenni sem ég hef ekki náð að losa mig við. Ég er samt ekkert rosalega skrautlegur til fara en ég tel mig ekki fylgja tískustraumum. Mér finnst gott að vera í víðum fötum og er alltaf í hlýrabol innst sem veitir mér þægindi og hreinleika.“

Daníel segir að honum finnist mikilvægt að eiga góðar og snyrtilega ullarbuxur og hann vill að hægt sé að gyrða buxurnar vel upp og bróka sig vel. Hann segir að líkja megi fatastíl hans við stíl ellilífeyrisþega.

„Ég versla mest í Hjálpræðishernum, þeim sáluga í Garðastræti og á Vínlandsleið. Stundum versla ég í Rauða kross-búðinni. Ég kaupi örsjaldan ný föt og þá í verslunum eins og Kronkron, Geysi eða Kormáki og Skildi,“ segir hann.

„Ég elska líka gleraugu og ég geng með fallega hringa sem eru með eðalsteinum sem vísa í Jyotish- stjörnuspekina og eru heilnæmir eðalsteinar fyrir mig. Ég nota rúbín-stein og gulan safír en hringana fékk ég sem gjöf frá foreldrum mínum.“

Daníel finnst mikilvægt að eiga góðar ullarbuxur og vill vera vel gyrtur.

Lykt hefur áhrif á nærveru

Daníel segist oft kaupa sér ilmkjarnaolíur til að lífga upp á hversdagsleikann í stað þess að kaupa sér ný föt.

„Það hefur sýnt sig að konungar á öldum áður notuðu ilmkjarnaolíu, hún var algjört gull, hún var svo dýr. Það þarf hundruð kílóa rósa til að búa til nokkra millílítra af olíu. Fyrir mér þá lyftirðu lífinu upp á konunglegan hátt með því að nota ilmkjarnaolíurnar til að lífga upp á hversdagsleikann. Það er hægt að nota góða lykt sem tískustatement. Hún hefur svo mikil áhrif á nærveru þína gagnvart öðru fólki,“ segir Daníel en hann hefur mikinn áhuga á ilmkjarnameðferð.

„Ég er búinn að fara á grunnnámskeið svo ég get beitt meðferðinni á sjálfan mig en ég hef ekki skírteini til að hjálpa öðrum. Ilmkjarnameðferð er í raun meðferð með jurtum sem eru eimaðar í ilmkjarna­olíum. Þær hafa áhrif á svokallaðar doshur sem geta skapað jafnvægi í líkamanum. Þær geta örvað eða róað hugann, haft áhrif á meltinguna og öndunina og fleira.“

Daníel segir að hann noti ekki ilmkjarnameðferð samhliða innhverfri íhugun.

„Íhugunin er ekki seremónía og ég vil alls ekki tengja þetta tvennt. Fólk tengir oft hugleiðslu og íhugun saman en þetta er ekki það sama. Í leiddri hugleiðslu er einhver utanaðkomandi sem segir þér hvað þú átt að hugsa og hvað þú átt að gera. En innhverf íhugun virkar ekki þannig, með tilstilli mantra og áreynslulausrar iðkunar leitar hugurinn náttúrulega inn á við sjálfkrafa, þess vegna köllum við þetta íhugun, ekki hugleiðslu.“

Þessa dagana er Daníel í BA-námi í listfræði til að fá betri innsýn í listir og menningu sem hann vonar að geri hann að betri listgreinakennara. En hann segir að hann hafi áhuga á því að loknu námi að læra meira á sviði innhverfrar íhugunar og kenna hana í skólum.