Það er óhætt að segja að tónlistarmaðurinn Karl Olgeirsson sé senuþjófur sýningarinnar Einæðisherrann sem Þjóðleikhúsið frumsýndi fyrr í vetur en þar sér hann um tónlistarstjórn, píanóleik og leikhljóð með eftirminnilegum hætti. „Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt ferli því utan þess að spila á píanó á sviðinu allan tímann er ég líka að gera áhrifahljóð. Ég er því einn af leikurunum því tímasetningar mínar hafa áhrif á leikarana og tímasetningar þeirra á mig. Svo elska ég Chaplin eins og svo margir og leikhópurinn er skipaður tómum snillingum.“

Næg verkefni

Utan Einræðisherrans er Karl á fullu í alls konar verkefnum. „Síðasta haust var ég að fylgja plötu minni og nótnabók úr hlaði. Um miðjan febrúar fæddist dóttir mín og það hefur nú aldeilis sett svip á lífið. Svo féllu mér Íslensku tónlistarverðlaunin í skaut sem lagahöfundur ársins og fyrir plötu ársins í djassflokki sem gaf plötunni og nótnabókinni byr undir báða vængi. Ég er að vinna í plötu með Jóhanni Helgasyni, undirbúa næsta leikverkefni í Þjóðleikhúsinu og að semja lög með orgeltríóinu mínu þannig að það er í mörg horn að líta.“ Og það er engin lognmolla fram undan. „Ég held litla tónleika í Þjóðleikhúskjallaranum 17. maí þar sem ég ætla að flytja þessa fjórtán djasssöngva sem fengu tónlistarverðlaunin ásamt Siggu Thorlacius, Jóel Pálssyni og Togga Jóns. Síðan fer ég til Hong Kong að sýna Hróa Hött með Vesturporti og svo ætlum við Sigga Eyrún, unnusta mín, að láta gefa okkur saman í lok júlí. Þetta verður því sannarlega spennandi vor og sumar hjá mér.“

Dettur í karakter

Hann segir gaman að klæða sig í karakterinn sem hann ætli að vera þá stundina. „Ég hef t.d. gaman af stílnum sem ég kalla New York-djassarann sem er svört hettupeysa undir frakka eða jakka, gallabuxur og Puma-skór. Annars hef ég nánast búið í 66°N-úlpunni minni í vetur. Hún er vegan, það er ekki dúnn í henni heldur eitthvert snilldarefni sem ég þekki ekki. Hún er létt en hlý og hentar á breiðu hitastigi. Hún hefur líka ýmis hólf þar sem ég geymi gleraugu og vaktarahúfu og annað sem ég kynni að nota.“

J. Philipp-vestið sem Karl klæðist hér segir hann vera nánast eins og smókingjakka. Þegar skyrtuermarnar fara upp fyrir flúrið losar Karl gjarnan um slaufuna. Röndóttu jakkafatabuxurnar eru frá Filippu K, keyptar í Rauðakrossbúð. Svörtu Puma-skórnir gera
Fréttablaðið/Ernir

Hvernig hefur tískuáhugi þinn þróast?

Ég hef alltaf verið svag fyrir dýrari merkjum en eignast þau yfirleitt sjaldan nema í gegnum útsölur eða á mörkuðum með notuð föt. Áþreifanlegasta þróunin hjá mér er samt pork pie-hatturinn sem ég uppgötvaði fyrir tilviljun á Portobello Road í London fyrir nokkrum árum. Mér var kalt á hausnum og var að leita að sixpensara sem hefur verið hattatýpan mín en sölumanni tókst að selja mér pork pie-hatt sem fór mér ansi vel. Síðan þá hef ég sankað að mér slíkum höttum þegar ég hef verið á ferðalögum í útlöndum.

Hvernig fylgist þú með tískunni?
Ég fylgist ekki með tísku nema með öðru auganu. Auðvitað sé ég greinar um hvað verði inni og úti hverju sinni en ég stekk ekkert út á sloppnum að ná mér í röndótta skyrtu þótt verið sé að mæla með því. Það er frekar að ég sjái einhvern af tónlistarmönnunum sem ég ber virðingu fyrir klæða sig á einn eða annan hátt og fái hugmyndir þaðan.

Hvar kaupir þú helst fötin þín?
Margar af mínum uppáhaldsflíkum hef ég fengið í Herragarðinum en ég er sökker fyrir Sand og Bugatti. Annars reyni ég að hafa augun opin hvar sem ég fer.

Hvaða litir eru í uppáhaldi?
Ég elska liti en oftast finnst mér dökkir litir fara mér best. Ég á reyndar töluvert af bláum jökkum einhverra hluta vegna. Það er gaman að skera sig úr á sviði en ég nota þá gjarnan skrautlega skó og hatta til þess.

Sand-frakkinn er úr Herragarðinum og silfurskórnir frá Adidas. Hatturinn er fyrsti pork pie-hattur Karls, keyptur í London fyrir nokkrum árum.
Fréttablaðið/Ernir

Áttu minningar um gömul tískuslys?
Um 1990 sá ég tónlistarmyndband með Prince sem klæddist þar geggjuðum gulum jakka. Ég óskaði mér slíks jakka í jólagjöf og fékk einn appelsínugulan sem ég var mjög kátur með. Seinna var ég að spóka mig í honum og hitti Pál Óskar á gangi á Laugaveginum. „Ert þú byrjaður að klæða þig svona?“ spurði hann forviða. Ég veit ekki ennþá hvað hann meinti. Svo benti mér einhver á að Spaugstofan væri með einmitt svona jakka sem einkennisbúning í sjónvarpinu. Þá lagði ég mínum loksins.

Hvaða flík hefur þú átt lengst og notar enn þá?
Ég á æðislegan Bugatti-frakka sem er léttur, fínn og grófur á stílíseraðan hátt. Hann er orðinn ansi slitinn en verður bara svalari með árunum. Ætli hann sé ekki hvað elstur í safninu.

Áttu þér uppáhaldsverslanir?
Það er hattabúð í Berlín sem ég hlakka til að heimsækja aftur. Zara á Champs-Élysées í París er með mikið af sviðsklæðum sem ég hef ekki séð í öðrum Zörum. Að vísu eru númerin heldur lítil þar …

Áttu þér uppáhaldsflík?
Ég hef oft átt flíkur sem ég hef tekið ástfóstri við, t.d. peysur, silkiskyrtur, skó og frakka. En í augnablikinu er engin flík í heiðurssætinu.

Bestu og verstu fatakaupin?
Bestu kaupin eru Filippa K-jakkaföt sem ég fann í Rauða krossinum í Lundi nánast gefins og alveg ónotuð. Ég hef oft keypt föt númeri of lítil sem ég hef ætlað að minnka niður í. Það eru án undantekninga slæm kaup.

Notar þú fylgihluti?
Ég er nýbúinn að fá mér geggjuð gleraugu frá Barton Perreira sem gera mig að betri manni. Svo hef ég hugsað mér að ganga með hring eftir brúðkaupið í sumar!