Ragnar Freyr Ingvarsson heldur úti öflugri uppskriftasíðu, Læknirinn í eldhúsinu, þar sem hann gefur lesendum fjölda frábærra hugmynda að góðum mat. Ragnar er ástríðukokkur og deilir hér girnilegri kjúklingauppskrift. Ragnar notar mikið grænmeti í þennan rétt en það er einmitt einstaklega gott grillað. Hann notar kúrbít, eggaldin, paprikur, sveppi, rauðlauk og butternut grasker. Grænmetið er síðan skorið gróft niður og velt upp úr heimagerðri hvítlauksolíu. Ragnar notar tréspjót sem hann lætur liggja í bleyti áður en þrætt er upp á þau. Það er gert svo þau brenni ekki.

Kjúklingur á grillið

Heill kjúklingur, hlutaður niður í bita. Beinin notuð í soð.

Marinering

100 ml sojasósa

50 ml sæt chilli-sósa

Hálfur niðurskorinn rauður chillipipar

30 ml af hvítlauksolíu

Salt, pipar og nokkur fersk mintulauf

Sumarlegur grillréttur fyrir alla fjölskylduna. MYND/RAGNAR FREYR

Allt hrært saman og kjötið sett saman við og látið marinerast í að minnsta kosti klukkustund. Þá er kjúklingurinn þræddur upp á spjót og grillaður við háan hita í 20 mínútur eða þangað til hann er fulleldaður.

Ragnar segir að grænmetið þurfi svipaðan tíma og kjúklingurinn á grillinu. „Lykilatriði er að pensla það ríkulega með hvítlauksolíu og snúa spjótunum reglulega til að verja það eldi. Grænmetið fær á sig fallega lit og er ljúffengt.“

Þegar kjúklingurinn er fulleldaður eru spjótin lögð á fat og ferskum kóríander dreift yfir þau ef fólk vill. Ragnar var einnig með hrísgrjón og grillsósu. „Einfaldasta grillsósa í heimi,“ segir hann

Grillað grænmeti er einstaklega ljúft og gott. MYND/RAGNAR FREYR

Chilli-sósa

100 ml sýrður rjómi

30-40 ml sæt chillisósa

Hrært saman og sósan er tilbúin.

Mjög góður réttur sem einfalt er að gera og við allra hæfi.