„Eins og margir unnendur eftirheimsenda, blóðsúthellinga og eymdarsagna með yljandi vonarneista hef ég ekki komist hjá því að kíkja á fyrstu þrjá þættina úr spennuseríunni The Last of Us,“ segir Tommi Valgeirs þegar hann er spurður hvað hann er helst að horfa á þessa dagana.
„Þótt samnefndur tölvuleikur muni seint teljist einhver snilld er með ólíkindum hversu vel tekst til með þessa aðlögun hans að kvikmyndaforminu. Þetta er grípandi gott!“ segir Tómas Valgeirsson um HBO-þættina sem allir eru að tala um og horfa á þessar vikurnar.
Pedro Pascal og Bella Ramsey eru fremst í flokki í hlutverkum Joel og Ellie og hann segir þau og fleiri leikara nýta tímann vel og ná auðveldri tengingu við áhorfandann. „Þetta er gæðaframleiðsla sem hittir í mark og allt stefnir í þrælgóða uppvakningaseríu sem brýtur um leið ákveðið blað með því að splundra þeirri mýtu um að bíóaðlaganir tölvuleikja séu alltaf rusl. Þetta er hægt. Þetta er skemmtilegt.

Það er ekki bara traust rennsli sem skiptir helstu máli hér, heldur tengingin við kjarna upprunalega leiksins. The Last of Us hugar fyrst að karakterum og síðan að hasarnum og þannig gengur þetta prýðilega upp sem sjálfstæð þáttaröð án þess að áhorfandinn þurfi að kunna að ræsa leikjatölvu eða hafa haldið á stýripinna.
Þegar svona ágætis ástríða er lögð í áframþróun „tölvuleikjaefnis“ má fastlega gera ráð fyrir að stórrisar kvikmyndavera eigi eftir að stökkva á færibandið og dæla hressilega af þessum tanki. Ofurhetjumyndir eru á útleið og þættir eða bíómyndir byggðar á tölvuleikjum munu núna taka við. Þótt almenningur megi óhjákvæmilega slaka örlítið á öllu „hæpi“ og „hæperbólum“, þá er þetta fantaflott sjónvarp þegar allt kemur til alls og mikið bíó. Kjósum Pedro!“