Jakob Frímann Magnússon, oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, verður á ferðinni um víðfeðmt kjördæmið á næsti dögum og efnir til samræðu við kjósendur í tali og tónum enda slagharpa á hverjum viðkomustað. „Þetta verða tvö til þrjú gigg á dag og bara verið að bjóða fólki að stíga á svið með Stuðmanni og taka þátt í að skapa framtíðarmúsík sem því er hugnanleg,“ segir Jakob um stuttan tónatúrinn sem hann kennir við kaffispjall, klatta, kátínu umhverfis flygilinn í 80 mínútur.

„Þetta verða tvö til þrjú gigg á dag og bara verið að bjóða fólki að stíga á svið með Stuðmanni og taka þátt í að skapa framtíðarmúsík sem því er hugnanleg,“ segir Jakob um stuttan tónatúrinn sem hann kennir við kaffispjall, klatta, kátínu umhverfis flygilinn í 80 mínútur.

„Þetta er spurningin um hvers konar samfélagi fólk vill búa í og ég ætla bara að hlusta eftir því og við ætlum að fanga kjarna hverrar hugmyndar í einhvers konar vígorð, slagorð, viðlag.

Það er verið að leika sér með orð og tóna og hlusta eftir væntingum þátttakenda á hverjum fundi,“ segir Jakob sem slær fyrstu tónana í Síldarminjasafninu á Siglufirði á sunnudaginn klukkan 14 og að Hofi á Akureyri klukkan 17 sama dag.

„Þetta er lagasmiðja með aðeins öðruvísi lögum en menn smíða við Austurvöll en vonandi ekkert síðri lykiláherslum. Ég hlakka mikið til þess að hitta fólk fyrir með þessum afslappaða og opna hætti.“

Umboðsmaður fólksins

Jakob segir að tala megi um nýstárlega tilraun til þess að teikna upp tíðnisvið í tónmáli. „Taka síðan spjall. Hlusta og svara og eiga samræður um brýnustu mál samtímans og samfélaganna. Ekki síst á þessum stöðum. Þarna er stórt svæði undir. Stórt kjördæmi. Norðaustrið.

Þetta eru Siglufjörður, Dalvík, Akureyri, Húsavík, Egilsstaðir og firðirnir allir sem þarna eru að hitta fyrir þann mann sem býðst til að gerast umboðsmaður þessa stóra svæðis,“ segir Jakob með vísan til reynslu og fyrri starfa. „Sá býr að töluverðri umboðsmannsreynslu og er að bjóða krafta sína til þess að fínstilla og bæta það sem að betur mætti fara.“

Tilbrigði við stef

Jakob er vitaskuld vanari tónleikaferðum með hópi en að þessu sinni spilar hann pólitískt sóló. Einn á sviðinu með flygilinn. „Við tökum samtalið með fólkinu og komum því síðan í loftið. Komum því áleiðis hvað það er sem brennur á fólki á öllum aldri,“ segir Jakob og áréttar að lykilboðskapur Flokks fólksins sé vitaskuld kjarninn í þessu.

„Það að fátækt og tómir ísskápar eru engan veginn samboðnir því auðuga samfélagi sem við búum í. Síðan eru tilbrigði við það stef í öllum helstu málaflokkum. Jöfnuður landsbyggðarfólks við þéttbýliskjarnann á suðvesturhorninu. Hann þarf að laga og fullt af gömlum uppsöfnuðum misskilningi og vitleysu sem þarf að má út.

Jakob Frí­mann flutti jóm­frúar­ræðu sína á þingi 2004 en hefur komið að ýmsum málum og frum­vörpum utan þings. Til dæmis nýjum Hljóð­rita­sjóði og af­námi náttagjaldsins.
Fréttablaðið/Hari

Fínstilling þingsins

Og allt er þetta spurning um fínstillingar og að geta talað fólk saman um hlutina inni á þinginu,“ segir Jakob og nefnir meðal annars samgöngumál, heilbrigðiskerfið og mikilvægi þess að afnema skerðingar á öryrkja, eldri borgara og námsfólk sem vill reyna að drýgja framfærslu sína.“

Jakob er ekki alveg ókunnugur þingstörfum en hann tók sæti sem varamaður 2004 fyrir Samfylkinguna en pólitískar rætur hans liggja dýpra í Alþýðuflokknum sáluga.

„Ég áttaði mig á því að á lífsleiðinni nær maður ekki árangri með því að skamma fólk eða lítillækka og gera hróp að fólki. Allra síst þeim sem eru kjörnir fulltrúar. Þú verður að tala við þau mannamál og kurteislega og fá þau með þér. Þetta eru sannindi sem ég myndi gjarnan vilja deila með öllum sem eru að reyna að ná fram fínstillingu á flóknu samfélagskerfi,“ segir stuðmaðurinn sem fann gamla taktinn hjá Flokki fólksins.

Ísland í A-flokk

„Ég týndi gamla Alþýðuflokknum mínum. Hann gufaði upp og ég fann hann aftur þegar ég var boðinn í heimsókn á skrifstofu Flokks fólksins. Meira segja gamla starfsfólkið af Alþýðuflokksskrifstofunni blasti við mér þar og þegar Inga Sæland, sem ég kalla hjartadrottninguna úr Fjallabyggð, var búin að heilla mig með blaðlausri þrumuræðu úr ræðustól Alþingis á eldhúsdeginum þá í rauninni þurfti hún enga slíka ræðu til þess að sannfæra mig um að hennar lykilmál, það að útrýma fátækt í einu auðugasta samfélagi heims, væri brýnt og brennandi,“ segir Jakob og hverfur aftur til kosningabaráttunnar 1991 þegar Alþýðuflokkurinn keyrði á slagorðinu Ísland í A-flokk.

„Nú er ég með sambærilega tilfinningu fyrir því að við erum í A-flokki meðal þjóða að flestu leyti nema því sem viðvíkur nauð og fátæktargildru sem þúsundir og tugþúsundir eru hnepptir í á hinu, skulum við segja, í hinu brokkgenga hagkerfi Íslands.

Við vitum að 260 þúsund kallinn dugar fyrri húsaleigu en ekki dýrustu matarkörfu í heimi. Þess vegna er þetta forgangsmál og lykilmál Flokks fólksins og ef hann hlýtur brautargengi þá ætla ég allavegana ekki að láta mitt eftir liggja við það að þetta verði klárað.“

Stigið á svið með Stuðmanni

Sunnudagur 19.september

Síldarminjasafnið, Siglufirði 14:00

Hof, Akureyri 17:00

Gísli, Eiríkur og Helgi, Dalvík 20:00

Mánudagagur 20.september

Hildibrand Hótel, Neskaupsstað 17:30

Tónlistamiðstöð Austurlands Eskifirði 20:30

Þriðjudagur 21. september

Valakjálf, Egilsstöðum 20:30

Fleiri fundir verða kynntir um helgina.