Sýning á ljósmyndum og kjólum verður í gamla Iðnskólanum á Akranesi dagana 17. og 18. júní. Kjólarnir eru með myndum sem flestar eru teknar á Vesturlandi og þeir eru framleiddir undir heitinu LAUFEY. Efnið í kjólunum er unnið úr endurnýttum plastflöskum.

Áskell Þórisson ljósmyndari tók myndirnar sem eru á kjólunum og sömuleiðis myndirnar sem munu hanga á veggjum gamla Iðnskólans. Það eru þau feðgin Laufey Dóra og Áskell sem ýttu kjólaframleiðslunni úr vör en Sjöfn Magnúsdóttir, klæðskeri á Akranesi, sér um saumaskapinn og kemur að hönnuninni með Laufeyju. Hver kjóll er sérsaumaður eftir málum kaupanda.

Sýningin í gamla Iðnskólanum, Skólabraut 9, verður opin frá kl. 11 til 17.30 báða dagana. Áhugasamir um kjóla geta hitt þær Laufeyju og Sjöfn á staðnum þann 17. júní frá kl. 14 til 16 en Áskell verður þarna báða dagana. Myndirnar eru til sölu en kjólana þarf að sérpanta.