Áköfustu íslensku kjötæturnar ætla að koma saman á veitingastaðnum BrewDog á sunnudaginn og fagna „vel heppnuðum World Carnivore Month 2019,“ með „steikáti“ eins eins og þau kalla viðburðinn. Sérstakur matseðill hefur verið settur saman af þessu tilefni og mannskapurinn ætlar að graðka í sig kolagrillað kjúklingalæri, reyktan, rifinn og tættan grísahnakka, sérvalið nautastriploin og dry age borgara.

Sjá einnig: Kjötætan fær sér kíló af steik kvölds og morgna

„Við gerðum þetta í fyrra líka þá mættu um fimmtán manns,“ segir þekktasta kjötæta landsins, Eyjamaðurinn Ævar Austfjörð í samtali við Fréttablaðið. „Ég veit ekki hvað það mæta margir núna en það er útlit fyrir að þeir verði eitthvað fleiri enda hefur stemningin í kringum þetta verið góð hjá okkur undanfarið og við ætlum að klára mánuðinn með stæl.“

Kjötæturnar neyta eingöngu dýraafurða og sniðganga allt grænmeti, ávexti, brauðmeti og sykur. Þeir allra hörðustu lifa síðan eingöngu á rauðu kjöti og vatni og Ævar hefur sem mest reynt að halda sig á þeim slóðum síðustu sautján mánuði. „Ég borða bara kjöt, egg af og til og enn sjaldnar ost. Flestir sem fara í þetta mataræði eru ekki að koma úr einhverju algjöru rusli og beint í kjötið Mjög margir eru búnir að prófa allan fjandann eins og ég sjálfur.“

Fimmtugur og flest fært

„Ég er nýorðinn fimmtugur og hef ekki verið við betri heilsu,“ segir Ævar. „Öll þessi þreyta sem maður var farinn að finna fyrir eftir vinnu og æfingar, verkir í skrokknum og svona, hefur bara nánast horfið. Það þarf eitthvað mikið að ganga á til þess að eitthvert svona álag trufli mig.“

Ævar segir þeim fjölga jafnt og þétt sem temji sér carnevor-lífsstílinn í þeirri trú að mataræðið bæti bæði líkamlega og andlega heilsu. „Einhverjir hafa verið að taka þetta svona af og til á meðan aðrir fylgja þessu mataræði að mestu leyti. Fólk gerir samt flest alveg undantekningar við sérstök tilefni enda á bókstafstrúin ekki upp á pallborðið í þessu og við sem þykjumst vera í forsvari fyrir þetta leggjum áherslu á valfrelsið.“

Sjá einnig: Söluaukning í kjöti og ostum vegna ketó

„Ævar segir fólk leita mikið leita ráða hjá honum enda kannski eðlilegt þar sem hann hafur haft sig mest í frammi og talað fjálglega fyrir þessu mataræði, bæði í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. „Ég er eiginlega fastur í þessu hlutverki. Kannski vegna þess að ég er með þeim fyrstu hérna sem fóru alla leið í þessu og ég mun svosem alveg sinna því á meðan engin gefur sig fram sem veit meira um þetta og er betur máli farinn. Ég vildi samt gjarnan að einhverjir sem vita meira en ég stígi fram.“

Ævar segist hafa rætt kjötátið talsvert við lækna, enda hafi hann góðan aðgang að þeim þar sem hann starfar á sjúkrahúsinu í Eyjum. „Ég veit um nokkra lækna sem eru búnir að prófa þetta og eru jafnvel að því og fylgja þessu jafnvel að nokkru leyti.“

Út með ruslið

Þótt Ævar hafi tröllatrú á kjötinu viðurkennir hann að mestu máli skipti að losna við „rusl“ á borð við sykurinn. „Það er alveg ljóst að það skiptir mestu máli að losna við ruslið og það getur meira að segja lagað heilsuna hjá einhverjum að fara á vegan fæði. Það gerir náttúrlega öllum gott að losna við sykurinn og reyndar kornið líka hjá mörgum.

Eins og ég hef sagt áður þá dettur mér ekki til hugar að segja að allir eigi bara að borða kjöt eins og ég geri en það hefðu allir gott af því að prófa allavega 30 daga.Þetta mun fara vel í langflesta og þeir sem ekki upplifa breytingu til hins betra ættu að sjálfsögðu að hætta við.

Ég er hins vegar alveg sannfærður um að leiðin að bættri heilsu almennings sé alls ekki að skerða aðgengi að kjöti með álögum sem hækka það í verði. Þvert á móti þarf að gera kjöt ódýrara, sérstaklega rauða kjötið. Rautt kjöt er einhver dýrasta næring sem þú færð vegna þess að það er góð næring og dugir eitt og sér til að næra mannslíkamann.“