Bækur
Kjarval – Málarinn sem fór sínar eigin leiðir
★★★★
Margrét Tryggvadóttir
Útgefandi: Iðunn
Blaðsíður: 96

Bók Margrétar Tryggvadóttur um Jóhannes Kjarval hlýtur að teljast með fallegri bókum þessa árs. Alexandra Buhl ber ábyrgð á hönnun og kápu og hefur þar staðið sig frábærlega. Fjöldi mynda og ljósmynda prýðir bókina og hljóta þær að heilla alla lesendur. Bókin er sérstaklega ætluð börnum og unglingum en ætti þó að höfða til allra aldurshópa.

Texti Margrétar Tryggvadóttur er sérlega lipur og læsilegur og hún kemur fróðleik til skila á einfaldan og skýran hátt. Fyrsti kafli bókarinnar, Maðurinn í hrauninu, er myndræn sviðsetning af Kjarval þar sem hann stendur við trönur í miðju hrauni og málar. Þetta er afar vel skrifaður og heillandi upphafskafli.

Ungur lesandi hlýtur að vilja vita meira um þennan mann, hvaðan hann kom, hvað varð um hann og hvernig verk hann skapaði. Öllu þessu og svo miklu fleira til svarar Margrét í heillandi og fróðlegri bók. Hún skrifar um Kjarval af hlýju og skilningi en leynir ekki göllum hans, eins og opinberast einna best í frásögnum af hjónabandi hans og fjölskyldulífi. Margréti tekst það sem er svo mikilvægt í bók eins og þessari að bregða upp eftirminnilegri mynd af stórkostlegum listamanni og afar sérstökum persónuleika.

Auk þess að segja frá Kjarval, lífshlaupi hans og verkum dregur Margrét upp mynd af samtíma málarans. Myndir af verkum Kjarvals, ljósmyndir af honum og tengdar honum eru sérstakt augnayndi.

Ungmenni landsins eru ansi mörg listræn og listelsk og munu fagna því að fræðast um einn helsta myndlistarmann þjóðarinnar í bók eins og þessari. Margrét hefur lýst yfir áhuga á að skrifa aðra bók í svipuðum stíl og þá um Nínu Tryggvadóttur. Vonandi verður af því og best væri auðvitað ef til yrði sérstakur bókaflokkur um merkustu myndlistarmenn þjóðarinnar. Æskan á skilið að fá slíkar bækur í hendur. Bókin um Kjarval er því vonandi fyrsta bókin af mörgum.

Niðurstaða: Falleg og vönduð bók fyrir ungmenni um einn merkasta myndlistarmann þjóðarinnar fyrr og síðar. Texti Margrétar Tryggvadóttur er ljómandi góður og fræðandi og myndskreytingar eru heillandi. Hér er einstaklega vel að verki staðið.