Nú stendur yfir í Fold uppboðshúsi uppboð á myndlist. Gott úrval verka er á uppboðinu, má þar nefna afar falleg landslagsverk eftir Ásgrím Jónsson, Jón Engilberts, Kjarval og Gunnlaug Blöndal. Af abstrakt verkum má telja verk eftir Karl Kvaran og Nínu Tryggvadóttur. Olíuverk eftir Hauk Dór, Pétur Friðrik, Svein Þórarinsson, Eyjólf Eyfells, Daða Guðbjörnsson, Kristínu Geirsdóttur og Nekron.

Mikið úrval minni verka er á uppboðinu, til dæmis verk eftir Sossu, Eirík Smith, Jón Reykdal, Valgarð Gunnarsson og Sigurð Örlygsson. Uppboðinu lýkur fimmtudaginn 6. janúar.

Þess má svo geta að nýlega seldist á uppboði hjá Gallerí Fold olíumálverkið Fjölnismenn eftir Jóhannes S. Kjarval á 10,8 milljónir. Málverkið var upphaflega í eigu Ragnars í Smára. Á sama uppboði seldist lítið málverk eftir Georg Guðna á 5,7 milljónir en verkið var metið á 3,2 milljónir og pappírsverk eftir Eggert Pétursson seldist á tvöföldu matsverði eða 1,2 milljónir. Þá fóru verk eftir naívistana Stórval og Ísleif Konráðsson einnig á tvöföldu matsverði.