Kit Harington sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Jon Snow í Game of Thrones þáttunum segist vera afar feginn að tökum á þáttunum sé lokið  en tökur á síðustu þáttunum í nýjustu seríunni hafi verið „virkilega erfiðar,“ að því er fram kemur í viðtali ástralska tímaritsins GQ við kappann.

„Það var eins og þetta ferli hefði verið hannað til þess að láta okkur hafa ógeð af þessu. Það var eins og það ætti hreinlega að brjóta okkur,“ segir kappinn sem þurfti að þola erfiðustu aðstæðurnar hve lengst allra þar sem hann fer að sjálfsögðu með eitt aðalhlutverka þáttanna.

Framleiðendur hafa raunar lýst því áður að tökur á einni af mikilvægustu bardagasenunni í komandi lokaseríu hafi tekið 55 daga og því skiljanlegt að Harington hafi verið þreyttur í lokin.

Sjá einnig: Ný kitla gefa vísbendingar um endalokin

„Það voru allir brotnir að lokum. Ég veit ekki hvort við grétum af því að við vorum svo leið að þessu væri lokið eða hvort við grétum af því að þetta var svo ógeðslega þreytandi. Við vorum algjörlega svefnvana.“

Leikarinn sem er 32 ára gamall hefur enda í rúman áratug leikið í þáttunum og líkir GQ honum við fanga sem nú er við það að fá frelsi.

„Ég man bara eftir öllum gangandi um rétt áður en við kláruðum síðustu senuna að raula við sig, „Ég er kominn með nóg núna,“ segir Harington jafnframt. 

„Ég elska þetta og þetta hefur verið það besta í lífi mínu. Ég mun sakna þess einn daginn en ég er búinn.“