Breski leikarinn Kit Harington sem fyrir löngu hefur öðlast heimsfrægð fyrir leik sinn sem Jon Snow í Game of Thrones þáttunum tjáir sig um þættina og lífið eftir að tökum lauk á síðustu seríunni í afar áhugaverðu viðtali við bandaríska miðilinn Variety en þar má með sanni segja að farið sé yfir víðan völl enda hefur Harington leikið í þáttunum undanfarin átta ár. 

Harington var 24 ára gamall þegar tökur hófust árið 2011 og voru þættirnir frumraun hans í sjónvarpi. Nú er hann 32 ára gamall og framtíðin blasir við en fyrsti þátturinn í síðustu seríunnu kemur út þann 14. apríl næstkomandi.

Tók langan tíma að sætta sig við frammistöðu sína

Í viðtalinu segist Harington vera afar stoltur af áttundu og síðustu seríunni sem að kemur út þann 14. apríl næstkomandi. „Þeir lögðu gjörsamlega allt í þetta. Þeir hefðu getað notað sama fjármagn og í sjöundu seríu en þeir gerðu þetta stærra.“ Hann segist jafnframt vera sinn stærsti gagnrýnandi en hann hefur horft einsamall á hvern einasta þátt. 

„Þegar ég horfi til baka á allt „Thrones“ að þá eru svona 70 prósent atriðanna minna atriði sem ég er ekki sáttur við og ég hef sætt mig við það,“ segir Harington en hann segir að hann sé sáttastur við frammistöðu sína í áttundu seríu. „Ég veit fyrir víst hver þetta er núna og ég er sáttur við það hver þetta er. Ég hef á tilfinningunni að ég sé sáttastur við mína frammistöðu sem Jon Snow að þessu sinni.“

Þá segir Harington jafnframt að það hafi verið erfitt fyrst um sinn að sitja undir þeirri gagnrýni að Jon Snow væri leiðinleg persóna. „Það náði til mín af því að ég elska þessa persónu. Hann er mín persóna og ég elska að leika hann,“ segir Harington en líkt og flestir vita sem séð hafa þættina varð Jon Snow stöðugt mikilvægari persóna eftir því sem leið á þættina.

„Núna lít ég til baka og ég er bara: „Heyrðu fjandakornið ég var mikilvægasti hlutinn af þessu öllu saman,“ segir Harington. „Jon var, og ég er, og ég er mjög stoltur af því. Það tók mig langan tíma að uppgötva að ég væri ekki verstur.“

Erfiðasti hlutinn þegar Jon dó og kom aftur

Harington lýsir því í viðtalinu að það hafi verið erfitt að taka út mikinn þroska í jafn viðamiklu verkefni og Game of Thrones. Það hafi verið langerfiðast þegar komið var í fimmtu seríu og síðasti þáttur seríunnar endaði á að persónan hans Jon var myrtur.

„Erfiðasti tíminn var þegar þátturinn fór skyndilega að snúast um Jon, þegar hann dó og kom aftur. Mér líkaði virkilega ekki við það að fókusinn fór á Jon, jafnvel þó það hafi í raun núllað út áhyggjur mínar yfir því að Jon væri ekki nógu góður,“ segir Harington.

„Þetta var fáránlega ógnvekjandi. Fólk öskraði á mig út á götu og spurði mig hvort ég væri dauður. Á sama tíma verður maður að halda í útlitið sitt og það eykur á tímann sem þú eyðir í að hugsa um þetta,“ segir Harington sem leitaði sér sálfræðiaðstoðar á þessum tíma vegna þess hve illa honum leið. 

Horfði á Peter Dinklage brotna saman í síðustu senunni sinni

Þá lýsir Harington tilfinningum sínum yfir því að Game of Thrones sé loksins lokið og hvernig það var þegar hann tók upp sína allra síðustu senu en hann fylgdist jafnframt með meðleikara sínum Peter Dinklage, sem hefur verið margverðlaunaður fyrir hlutverk sitt sem Tyrion Lannister í sinni síðustu senu.

„Hann brotnaði bara niður,“ segir Harington. Hann segir að þegar hann hafi klárað tökur daginn eftir hafi tilfinningin verið óraunveruleg. „Ég flaut bara um,“ segir Harington en hann segist jafnframt hafa brostið í tár þegar leikararnir settust saman í upphafi seríunnar til að lesa handritið. „Ég var afar sáttur við endalok ferðalagsins hjá Jon og hvernig sagan hans endar,“ segir Harington. Hann segir að útlit sitt sem Jon Snow, með síðu krullurnar, eigi eftir að fylgja honum lengi.

„Stór hluti þrítugsaldursins míns er þetta útlit. Brúðkaupsmyndirnar mínar eru af mér og fyrrverandi meðleikkonu minni. Ég fór úr búningnum síðasta daginn og mér leið eins og það væri verið að fletta húðinni minni af. Ég var mjög tilfinningaríkur. Það var eins og einhver væri að stela einhverjum mikilvægum hluta af mér.“

Þrátt fyrir þetta segir Harington að tökurnar hafi verið afar erfiðar, en þær hafi tekið níu mánuði og þar af segist hann hafa verið á setti nánast allan tímann. „Tökur voru í öllum veðrum og í þungum búningum. Og ég var þarna allan tímann þetta árið. Mér fannst eins og fólk væri að koma og fara en Jon Snow bara var þarna allan helvítis tímann.“