Kötturinn Púka fannst við Landakotskirkju í gærkvöld eftir að hafa verið týnd í eitt og hálft ár. Hún heldur nú aftur heim á Egilsstaði en enn er hulin ráðgáta hvernig hún villtist til Reykjavíkur.

Áshildur Haraldsdóttir var á leiðinni heim úr vinnunni þegar kötturinn Púka tók upp á því að elta hana í Vesturbæinn. Hún dró því eðlilega þá ályktun að kisa ætti heima í hverfinu og auglýsti eftir eiganda hennar í Facebook-hópnum Kattavaktin ef ske kynni að Púku væri saknað. „Hún er ekki með ól en ágætlega haldin. Vældi og virðist svöng,“ skrifaði hún.

Stuttu síðar uppfærði hún færsluna þar sem vinur dóttur hennar, sem var í heimsókn, var fyrir tilviljun með örmerkjaskanna í bílnum þannig að þau gátu borið kennsl á kisu.

„Kisa var skönnuð, fundum örmerki og í kjölfarið eigandann. Þetta er sem sagt hún Púka. Púka býr á Egilsstöðum og er búin að vera týnd í eitt og hálft ár. Fer vonandi heim til sín með flugi á morgun,“ stendur í uppfærslunni.

Áshildur og Stefán Snær Grétarson, eiginmaður hennar, höfðu í kjölfarið uppi á eigandanum og eftir frekari eftirgrennslan komst Stefán Snær að því að kötturinn hafi búið í Reykjanesbæ þegar hann hvarf: „Þetta er því ekki eins mikið ævintýri eins og það leit út fyrir að vera,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.

„Eigandinn hafi skroppið til Kanarí og kom kettinum í pössun. Ég hef í raun ekki upplýsingar um hvert kötturinn fór í pössun eða hvernig hann komst til Reykjavíkur,“ heldur hann áfram.

Stefán segir að hann sé á leiðinni út á Reykjavíkurflugvöll á eftir í þeirri von um að koma kettinum í flug til Egilsstaða þar sem þakklátur eigandi bíður Púku.

„Hún fór eiginlega bara að skæla og fannst þetta allt saman afskaplega merkilegt. Ég þekki ekki til hennar, en er með heimilisfang og símanúmer, þannig ég vonast til að einhver velviljug flugfreyja sé til í að kippa Púku með í búri Austur.

Púka var dálítið horuð þegar hún fannst, en rosalega kelin, mannblendin og góð. Ég gæti trúað því að hún hafi komið sér einhvers staðar inn þar sem hún lítur vel út og giska á að hún hafi fengið ágæta næringu á feldinum að dæma,“ segir Stefán Snær.

Færsla Áshildur á Kattavaktinni á Facebook.
Mynd/Skjáskot