Í því ljósi varð til COVID-verkefnið Kirkjan til fólksins. Yfirheiti margra ólíkra verkefna sem öll vísa til þess að ef fólkið kemst ekki í kirkjuna, þá kemur kirkjan heim til fólksins – með allri þeirri möguleikaflóru sem tæknin býður upp á í dag.

„Þegar nær dró aðventu gerðum við okkur grein fyrir að ólíklegt væri að kirkjur gætu opnað haftalaust, jafnvel að þær yrðu lokaðar yfir aðventu og hátíðarnar. Þá fórum við strax að undirbúa og skipuleggja eina óvenjulegustu jólahátíð seinni tíma – hátíð þar sem Kirkjan leikur lykilhlutverk, sem áður, en í stað þess að fólkið komi í Kirkjuna og njóti hátíðarinnar, þá kemur Kirkjan inn á hvert heimili með ljós og friðarboðskap jólanna, hátíðartónlist og vonina sem mannssonurinn færði heiminum,“ segir Pétur Markan, samskiptastjóri á Biskupsstofu.

Frábært samstarf

„Kirkjan kemur til fólksins á aðventunni. Þá má ekki gleyma að upphafleg merking orðsins kirkja, forngríska orðið ekklesía, þýðir ekki steypa heldur samfélag. Þannig mun kirkjan eiga samfélag með þjóðinni yfir hátíðarnar – kirkjan kemur í staðinn heim til fólksins.

Sem dæmi um þetta má nefna frábært samstarf við RÚV – sem ég má til með að hrósa. Á aðventunni hafa verið sýndar messur á sunnudögum í fullum skrúða og gæðum. Þá verður helgistund á jólanótt með biskupi Íslands á aðfangadagskvöld á RÚV. Einnig verður hátíðarmessa á jóladag á RÚV klukkan 11. Aldrei hefur verið lagt jafn mikið í dagskrárgerð með Kirkjunni á aðventunni með RÚV. Fyrir það erum við ekki bara afar þakklát – við höfum fengið ótrúlega mikil og góð viðbrögð frá fólki hvaðanæva af landinu sem er þakklátt og glatt,“ greinir Pétur frá.

„Þá hefur verið algjörlega stórkostlegt að fylgjast með sóknum landsins, örsmáum prestaköllum upp í fjölmennustu kirkjur, ná frábæru valdi á tækni og miðlum og færa þannig kirkjuna, stundum daglega, til fólksins – þegar fólkið hefur ekki komist til kirkju. Þetta eru hetjur kirkjunnar sem hafa sýnt kraft og seiglu, frumkvæði og nýsköpun þegar verulega hefur reynt á. Yfir hátíðarnar verða sóknir landsins með hátíðarefni, í þessum streymis- og netanda, sem við hvetjum ykkur til að nálgast.

Vandað dagatal

Þá vann kirkjan vandað dagatal á aðventunni. Dagatalið er þannig saman sett að teiknaðar voru tuttugu og fjórar fallegar myndir með samhentum hjónum á besta aldri þar sem leiðarstef er fyrir hvern dag. Án þess að eigna einhverjum einum þjóðfélagshópi dagatalið þá einblínum við með þessum persónum á aðstæður og veröld eldri borgara á tíma félagshafta. Dagatalið má finna á samskiptamiðlum kirkjunnar.

Dæmi um leiðarstef er til dæmis æðruleysi – síðan fylgir mynd þar sem leiðarstefið er túlkað. Þannig mun stafrænn gluggi birtast á hverjum degi – þegar glugginn er opnaður birtist myndin og undir mun hljóma ljóð/ljóðahugleiðing dagsins eftir Sigurbjörn Þorkelsson rithöfund. Höfundurinn les sjálfur með sinni djúpu silkimjúku rödd. Verkefnið lítur afar vel út og er fyrst og fremst hugsað til að mæta áskorun samtímans; einmanaleika, áhyggjum og kvíða með von, kærleika og trú í aðdraganda jóla.“