Það var góð stemning í hönnunarbúðinni Kiosk á laugardaginn í tilefni þess að ár er liðið síðan verslunin var opnuð á ný á Granda. Búðin er rekin af þeim Eygló Margréti, Helgu Lilju, Magneu, Anitu og Hlín, en þær eru sammála um að svæðið sé í mikilli sókn.

Ein flottasta hönnunarbúð landsins, Kiosk, hélt upp á það á laugardaginn að ár er liðið síðan verslunin var opnuð á ný á Granda og var margt góðra gesta. Búðin er rekin af fatahönnuðunum Magneu Einarsdóttur, Anitu Hirlekar, Eygló Margréti Lárusdóttur, Helgu Lilju Magnúsdóttur og skartgripahönnuðinum Hlín Reykdal. Merkin heita eftir þeim ef frá er skilið merki Helgu Lilju, Bahns. Einnig er ýmis hönnunarvara seld í versluninni og ný sending af ilmvötnum frá Andreu Maack kom loks í hillurnar í tilefni dagsins. Búðin var áður staðsett í miðbænum. Þær ákváðu eftir stutta pásu að opna verslunina á Granda enda eru þær sammála um að svæðið sé í mikilli sókn. Aðdáendur búðarinnar mættu að sjálfsögðu í afmælið og létu sig hafa leiðindaveður bara til að komast í gleðskapinn.

Eygló segir að það hafi verið mikið stuð í afmælinu.

„Heldur betur! Enda mikil uppsöfnuð þörf hjá fólki fyrir að komast út og lyfta sér upp.“

Kiosk var fyrst stofnuð árið 2010 af nokkrum fatahönnuðum.

„Þar á meðal Eygló og Hlín. Við sáum að það var vöntun á stað fyrir unga fatahönnuði að taka sín fyrstu skref. Verslunin hefur nú á þessum ellefu árum alið af sér margan framúrskarandi hönnuðinn. Nú þegar við opnuðum verslunina aftur á Grandanum ákváðum við að hafa aðeins aðrar áherslur en við eigendurnir erum nú allar með þó nokkra reynslu að baki,“ útskýrir Helga Lilja.

Glæsilegur blöðruveggur skreytti einn vegg búðarinnar. Gestir fengu svo glæsilegan vönd með nál og á endanum fengu allir að stinga á blöðru, en inni í þeim voru veglegir vinningar.

„Ég er mikil bingódrottning og við Erna blöðrubína vorum að hafa það huggulegt á Kaffibarnum þegar þessi skemmtilega hugmynd kom upp. Erna er með verslunina Pippa.‌is og er sérfræðingur í blöðruskúlptúrum og ég er þekkt fyrir að gjörsamlega elska svona leiki og gott bingó,“ segir Eygló.

Hún segir það magnað og gleðilegt hversu fyrsta árið hefur gengið vel.

„Við eigum sterkan kúnnahóp enda höfum við allar verið starfandi í áratug eða svo. Covid virðist ekki hafa haft neikvæð áhrif á reksturinn, jákvæð ef eitthvað er, enda hefur fólk ekki komist mikið til útlanda. Við finnum líka alltaf fyrir auknum meðbyr frá íslenskum kúnnum þegar einhvers konar kreppa skellur á.“

„Við höfum einnig fundið fyrir aukinni sölu í gegnum netverslunina okkar, kioskgrandi.com, en þar er að finna það nýjasta og einnig eldri vörur hjá okkur, “ bætir Anita við.

Hvað kom til að þið ákváðuð að flytjast út á Granda?

„Við sáum rýmið auglýst en það er ekki hlaupið að því að fá pláss hérna í verbúðunum. Við erum komnar til að vera á þessum stað. Grandinn hefur allt sem hægt er upp á að bjóða, æðislega veitingastaði, kjötbúð, matarverslanir, bílaþvottastöð, ísbúðir, granólabar. Nefndu það! Svo ekki sé minnst á gott aðgengi og ókeypis bílastæði. Hvernig er annað hægt en að elska Grandann?“ ■

Allir sem mættu á viðburðinn fengu að stinga á blöðru í tilefni afmælisin en þær innihéldu allar fína vinninga.
Leikkonan Þuríður Blær Jóhannsdóttir var ánægð með vinninginn sinn.
Þorbjörg Þórðardótttir, Þórður Hall, Hadda Fjóla Reykdal og Jóhanna Vigdís Þórðardóttir létu sig ekki vanta.
Hönnuðirnir eru sammála um að sala hafi jafnvel aukist í heimsfaraldrinum.
Heinz og Ilze mættu í afmælið. Blöðruveggurinn vakti mikla lukku hjá yngri kynslóðinni.
Mæðgurnar Hlín Reykdal, Jóhanna Vigdís Þórðardóttir og Hadda Fjóla Reykdal skemmtu sér konunglega í boðinu.