Kindin Rúsína er eflaust ein mannblendnasta kind landsins. Hún er líka svolítil frekjudós, enda finnst henni fátt betra en að fá klapp á magann og fer reglulega í langa göngutúra með mannfólki um fjöll og firnindi. 

Rúsína, sem er búsett á bænum Gróustöðum í Reykhólasveit, heitir með rentu Artemis Rúsínurass, en er í daglegu tali kölluð Rúsína, enda er nafnið í fullri lengd nokkur tungubrjótur.  

Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir, eða Gulla, er eigandi Rúsínu. Konan og kindin eru miklir vinir, enda hugsaði Gulla um Rúsínu eftir að mamma hennar drapst. 

Gulla er sjálf þjóðfræðingur að mennt og er fædd og uppalin á Gróustöðum þar sem fjölskylda hennar er með sauðfjárrækt. Síðustu misseri hefur hún þó verið búsett á Sauðárkróki þar sem hún starfar við skalvörslu fyrir utanríkisráðuneytið, en er dugleg að fara heim á Gróustaði. 

Á allra næstu vikum mun hún svo flytja heim, ekki þó til að taka við búskap heldur til þess að taka við listamannasetri í sveitinni. „Sauðfjárbúskapurinn fylgir svo bara með,“ segir Gulla létt í lund í samtali við Fréttablaðið en faðir hennar sér nú um búskapinn.

Virðuleg forystuær sem fann sér hrút í laumi

Aðspurð um kindina Rúsínu segir Gulla kindina, eða lambið, hafa mætt óvænt í heiminn í mars í fyrra. Hún er nokkurs konar blendingur, en á bænum ræktar fjölskyldan svokallaða forystusauði, sem að sögn Gullu er tegund sem finnst eingöngu á Íslandi og er ræktað fyrir gáfnafar því það hefur leitt hjarðir í gegnum öll möguleg og ómöguleg veður í nokkur hundruð ár.

Mamma Rúsínu, Artemis, var virðuleg 13 vetra forystuær sem hafði ekki verið látin bera lamb í þrjú til fjögur ár. 

„Hún fann sér greinilega einhvern skemmtilegan hrút snemma að hausti án þess að við vissum af því,“ segir Gulla en engann á heimilinu grunaði að rollan, sem var komin vel að árum, væri tvílemd. Systkini Rúsínu drapst hins vegar á miðri leið inn í heiminn, en Rúsína sjálf lifði af. Kindin Artemis var hins vegar sem fyrr segir orðin þrettán ára og því ekki á besta aldri til að bera lömb. 

Lambið sett í stærsta hundabúrið

„Hún náttúrulega mjólkaði ekki neitt svo við fórum að gefa lambinu pela, en svo dó rollann. Ég varð hins vegar alveg harðákveðin í því að halda þessu lambi á lífi. Hún var nýfædd og þurfti að drekka með pela rosalega oft,“ segir Gulla sem kveðst hafa endað á því að finna stærsta hundabúrið á heiminu og fékk Rúsína litla að hvíla í því fyrstu næturnar.

„Þannig að ég gæti vaknað á þriggja tíma fresti, gefið henni á pela og farið aftur að sofa.“ Aðspurð segir Gulla lambið í kjölfarið hafa orðið mjög hænt að sér en hún sé yfir höfuð mjög hrifin af mannfólki.

„Við ætluðum alltaf að láta einhverja aðra rollu sjá um hana þegar sauðburður byrjaði í maí en svo vorum við með endalaust af lömbum sem var mikilvægara að koma undir rollur. Hún kunni á pela og líkaði vel við fólk þannig allt í einu var hún bara komin í heimalingahópinn í júní og var bara rosalega sátt að hlaupa um planið í júní með svona fimm öðrum lömbum sem voru líka móður laus,“ segir Gulla.

Frábær göngufélagi

Rúsína hefur frá fæðingu verið einkar mannblendin kind og fer reglulega í gönguferðir með Gullu. Fyrsta gönguferðin bar að garði síðasta haust þegar Gulla var á leið ein síns liðs í berjamó þegar kindin slóst skyndilega með í för, algjörlega óumbeðin. 

„Hún bara elti mig upp í fjallshlíð eins og ekkert væri sjálfsagðara,“ segir Gulla. „Svo prófaði ég þetta aftur nokkrum vikum seinna og fattaði þá bara, hey hún bara fýlar þetta í tætlur að fá að elta mig í göngutúra.“

Síðan þá hafa þær stöllur farið reglulega saman í göngutúra. Dags daglega dvelur Rúsína ekki hjá hinum rollunum heldur í fóðurhúsinu, þar sem fjölskyldan geymir heyrúllurnar og unir sér að sögn Gullu mjög vel þar og sést reglulega hoppa á milli heyrúlla, í góðu stuði.  

Kind sem lærir að opna hús

Aðspurð hvort kindin sé hændari að Gullu sjálfri en öðrum kveðst hún telja svo vera. 

„Hún á það til að fara úr fjárhúsunum og koma jarmandi á hlaðið heima. Svo ef ég kem út og kalla á hana þá þagnar hún, skokkar upp á verönd og er bara voða glöð að fá klapp og athygli frá mér,“ en Rúsína er sérstaklega kelin kind. 

„Hún er svo hamingjusöm þegar henni er klórað á bringunni og fær bara að standa kjurr. Það stórkostlegasta er að hún er við það að læra að opna inn í hús heima, einhvern tíman í sumar var útidyrahurðin opin heima og hún kom inn og fór að éta hundamatinn og var mjög hrifin. Svo eftir að hún fattaði að allt fólkið væri inni þá kemur hún reglulega upp á verönd og stendur á öskrinu því hún vill athygli.“

Gífurlegur áhugi fyrir Rúsínu meðal netverja

Aðspurð segir Gulla flestum líka vel við Rúsínu, þó hún geti verið smá pirrandi þegar hún flækist fyrir. „Annars líkar öllum vel við hana. Ég er mjög dugleg að setja myndir af henni á Facebook hjá mér og mikið af vinum af henni elska að fá myndir af henni.“ Vinsældir Rúsínu eru svo miklar að Gulla hefur íhugað að stofna eigin Instagram og Twitter reikning handa kindinni. 

Sem fyrr segir mun Gulla flytja heim í Reykhólasveit á næstu vikum og er fastlega hægt að gera ráð fyrir því að kindin verði sátt með flutninga.

„Þegar ég er heima þá er ég alveg farin að taka hana út um allt. Hún eltir mig bara eins og hundur í rauninni.“