Tríóið KIMI flytja tónlist í Breiðholtskirkju í dag kl. 15:15. Gálgaganga er yfirskrift tónleika KIMI á tónleikum 15:15 tónleikasyrpunnar í Breiðholtskirkju. Á efnisskránni eru verkin Andante frá 2006 eftir Þuríði Jónsdóttur og Galgenlieder frá 1996 eftir Sophiu Gubaidulinu. Tríóið KIMI skipa þau Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmóníkuleikari, Katerina Anagnostidou, slagverksleikari og Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir söngkona, gestaleikarar á tónleikunum verða Björg Brjánsdóttir, flautuleikari og Xun Yang, kontrabassaleikari.
Hópurinn KIMI var stofnaður árið 2018, tríóið einblínir einkum á flutning nýrrar tónlistar í bland við eigin útsetningar á þjóðlögum og sönglögum. Á meðal tónskálda sem samið hafa verk sérstaklega fyrir KIMI eru Finnur Karlsson, Þóranna Björnsdóttir, Gunnar Karel Másson og Hugi Guðmundsson.
Hópurinn hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2021 fyrir tónleika ársins í flokknum sígild og samtímatónlist og gaf út sína fyrstu smáskífu fyrr á þessu ári hjá plötufyrirtækinu Dacapo Records: hljóðritun af verkinu Bittersweet sem tónskáldið Nikki Martin samdi fyrir hópinn árið 2018.