Rappararnir Kanye West og Drake virðast hafa átt í harkalegum erjum ef marka má Twitter síðu West og Instagram síðu Drake en West sakaði hinn síðarnefnda meðal annars um að hafa hótað fjölskyldunni sinni.

Þannig brást eiginkona Kanye, Kim Kardashian við rifrildinu með færslu á Twitter síðu sinni í dag, þar sem hún varar Drake við að hóta eiginmanninum sínum eða fjölskyldunni sinni. „Aldrei hóta eiginmanninum mínum eða fjölskyldunni okkar. Hann ruddi veginn svo að Drake gæti verið til.“

Rifrildi rapparanna hófst eftir að Drake bað höfundateymi West um leyfi til þess að nýta bút úr laginu „Say What's Real“ sem þeir félagar unnu saman árið 2009. Kanye brást ókvæða við og talaði illa um Drake á Twitter í nokkrum færslum sem birtust í gær og virðist halda því fram að Drake hafi talað illa um sig með óbeinum hætti í lögum sínum. 

Pirringurinn er sagður hafa verið til staðar í nokkra mánuði en svo soðið upp úr þegar Drake sendi teymi Kanye umrædda beiðni. Kanye lýsti því yfir að hann væri til í að ná tali við rapparann en á milli þess sem hann jós fúkyrðum yfir rapparann tjáði hann einnig yfir vilja til þess að sættast við rapparann og fullyrti að hann væri ekki að vera neikvæður til þess eins að vera neikvæður.

„Allt jákvæð orka. Enginn tónlistarmaður ætti að dissa mig, vandamálið snýr að laumudissi. Drake hringdi í mig og hótaði mér,“ tísti Kanye meðal annars í nokkrum færslum en hann hélt því einnig fram að Travis Scott, kærasti Kylie Jenner hefði einnig sent sér hótanir. 

Drake hefur með engu móti tjáð sig um ummæli Kanye að öðru leyti en með færslu sem hann birti á Instagram síðunni sinni.

Þar setti hann inn hlæjandi broskalla og virtist ekki taka aðfinnslum Kanye alvarlega. Kayne hefur lýst því yfir að hann vilji ná tali af Drake, svo rappararnir geti yfirstígið rifrildið.