Sam­skipti at­hafna­konunnar Kim Kar­dashian og eigin­manns hennar, rapparans Kanye West, sem sáust í nýjasta þættinum Keeping Up With The Kar­dashians, hafa vakið heims­at­hygli en hún tók það ó­stinnt upp þegar rapparinn gagn­rýndi hana fyrir klæða­burð hennar. At­riðið má sjá í mynd­bandinu hér að neðan.

Þátturinn hafi verið tekinn upp í að­draganda hinnar ár­legu Met Gala balls ríka og fræga fólksins sem fram fór í New York í maí á þessu ári. Virtist hann gera at­huga­semdir við svo­kallað líf­stykki (e. cor­set) at­hafna­konunnar og eigin­konu sinnar.

Hún svaraði honum hins vegar fullum hálsi til baka og spurði hann hvers vegna hann væri að valda hjá sér kvíða með þessum hætti. Strunsaði rapparinn að endingu út eins og sjá má hér að neðan.

„Ég gekk í gegnum þessar breytingar þar sem það að vera rappari, að horfa á allar þessar stelpur og horfa á konuna mína, og vera bara „Já ókei þannig stelpan mín þarf að vera alveg eins og hinar stelpurnar að sýna líkamannn sinn.“ Ég áttaði mig ekki á því að þetta var að hafa á­hrif á sál mína og anda sem ein­hver sem er giftur og faðir núna...næstum fjögurra krakka. Líf­stykki er form af nær­fötum, það er heitt, en fyrir hvern samt?“ sagði rapparinn við at­hafna­konuna sem svaraði honum fullum hálsi.

„Svo að kvöldið fyrir Met kemuru hingað og segir að þú sért ekki að fíla líf­stykkið? Þú ert að valda mér slæmum kvíða. Þú vissir það að ég var með slæman kvíða síðasta kvöld og ég þarf ekki meiri nei­kvæða orku,“ svaraði hún honum þá.

„Þú ert konan mín og það hefur á­hrif á mig þegar myndir eru of kyn­þokka­fullar,“ segir hann þá við hana. „Þú byggðir mig upp sem þessi kyn­þokka­fulla mann­vera og sjálfs­traustið og allt þetta og bara vegna þess að þú ert á veg­ferð og í breytingum þýðir það ekki að ég þurfi að vera á sama stað og þú...það er gjör­sam­lega fá­rán­legt,“ svarar hún.