Raunveruleika stjarnan Kim Kardashian birti myndir af sér án giftingarhrings á samfélagsmiðlum í gær. Þetta er í fyrsta skipti, eftir að orðrómar um endalok hjónabands hennar og Kanye West komust á kreik, sem Kim sést án hringsins.

Um það bil vika er síðan allir helstu slúðurmiðlar heims fjölluðu um yfirvonandi skilnað hjónanna og var haft eftir fjölda heimildarmanna að það væri aðeins tímaspursmál hvenær síðasti naglinn yrði rekinn í kistuna.

Þá var fullyrt að lögfræðingar væru farnir að draga upp skilnaðarskjölin í umfjöllun bandaríska slúðurmiðilsins Page Six.

Fylgjendur voru ekki lengi að taka eftir hringlausum fingrum Kim.
Mynd/Instagram

Ekki hefur heyrst stakt orð úr herbúðum Kim og Kanye sem hafa hvorki hrakið né staðfest orðrómana. Nýjasta útspil Kim á samfélagsmiðlum hefur gert lítið til að draga úr efasemdum fylgjenda hennar.

Kim birti myndir af sér ásamt vinkonu sinni Allison Statter þar sem fer ekki á milli mála að hringurinn hefur verið látinn fjúka. Það sést sérstaklega vel á mynd þar sem Kim ber hönd sína upp að andliti sínu.

„Þau eru að gera lítið úr þessu en þau eru búin,“ sagði heimildarmaður Page Six. Ekkert er þó staðfest enn en óhætt er að segja að samband Kim og Kanye hafi verið betra.