Stefanía Svavars­dóttir starfar sem söng­kona og söng­kennari í söng­skóla Maríu. Líf Stefaníu hefur að miklu leyti alltaf snúist um söng og hefur hún unnið fyrir sér með röddinni frá því að hún var að­eins fjór­tán ára gömul.

Fyrir rúm­u ári síðan varð Stefanía móðir í fyrsta sinn en eftir með­gönguna hafði hún þyngst um 20 kíló sem hafði tölu­verð á­hrif á sjálfs­mynd hennar. Hún á­kvað því að taka sig á og prófa Ketó matar­æðið af fullum krafti sem hún sér ekki eftir í dag.

„Ég borðaði allt sem mig langaði í á með­göngunni og pældi ekkert í því hvað ég var að setja ofan í mig. Fyrstu mánuðina eftir með­gönguna fannst mér rosa­lega erfitt hvað líkami minn hafði breyst. Ég passaði ekki í neitt af fötunum mínum og allar konurnar í kringum mig sögðu mér að þetta væri bara tíma­bundið á­stand. Ég keypti það ekki alveg þá en í dag sé ég að það er rétt. Í byrjun septem­ber byrjaði ég í þjálfun hjá Yesmine Ol­sson og tók matar­æðið í gegn. Kærasti minn hafði þá verið meira og minna Ketó síðustu tvö árin svo ég á­kvað að slá til,“ segir Stefanía í við­tali við Frétta­blaðið.

Skemmtilegt að vera hvatvís

Stefanía er mikil fé­lags­vera sem hefur gaman að því að vera í kringum annað fólk, hún stundar hug­leiðslu af kappi og les mikið af bókum um nú­vitund, búddisma og and­leg mál­efni. Hún er greind með ADHD og segist vera með mikinn at­hyglis­brest sem hafi oft komið henni í alls­konar ótrúlegar að­stæður.

„Ég byrjaði á lyfjum aftur fyrir nokkrum mánuðum sem breytti öllu fyrir mig því þá þarf ég ekki að vera að gera milljón hluti á sama tíma. Ég er líka rosa­lega hvat­vís sem fylgir at­hyglis­brestinum en mér finnst það skemmti­legt. Ég fæ svo brjálaðar hug­myndir og ég verð að gera þær strax sem hefur oft orðið til þess að ég ferðast rosa­lega mikið,“ segir hún og viður­kennir að stað­festa kærasta hennar í matar­æðinu hafi hjálpað henni gífur­lega til að byrja með.

„Hann eldar svo geggjaðan mat og hefur svo gott hug­mynda­flug; býr til margt nýtt og við erum aldrei að borða það sama. Hann er alveg grjót­harður í þessu og það hjálpaði mér rosa­lega mikið. Það fóru bara að leka af mér kílóin. Yesmine gefur okkur heldur engan af­slátt og pískar okkur alveg út í ræktinni sem mér finnst mjög skemmti­legt. Það er eigin­lega skrítið hvað ég hef gaman af ræktinni og get verið al­gjör skepna þar vegna þess að ég hef ekki gaman af annars­konar hreyfingu eins og göngu­túrum og fjall­göngum og þannig,“ segir Stefanía.

Hvatvísi Stefaníu hefur oft komið henni í ótrúlegar aðstæður
Mynd/Anton

Um fjórir mánuðir eru liðnir frá því að Stefanía hóf veg­ferð sína á Ketó og segir hún það vera hálf­gerða klisju en í dag líti hún á matar­æðið sem lífs­stíl.

„Mér líður miklu betur, ég borða ekki sykur, ég er minna svöng og ef ég svindla þá líður mér alveg hræði­lega illa eftir á og stekk á vagninn strax aftur daginn eftir. Ég fæ illt í magann og fyllist af lofti og svona sleni. Ég er alltaf að átta mig betur og betur á því hvað það er ekki þess virði að svindla en ég veit líka að þetta snýst um jafn­vægi. Ef maður ætlaði sér að borða aldrei aftur kol­vetni það sem eftir væri af ævinni þá er það voða­legt mein­lætis líf sem maður er komin í,“ segir hún.

Viljastyrkur kærastans hjálpar henni

Stefanía segist í upp­hafi hafa passað rosa­lega vel upp á hvað hún borðaði og fylgst vel með öllu. Í dag sé hún þó ekki alveg 100 prósent Ketó en að ferlið verði auð­veldara þegar líður á það.

„Þau örfáu kolvetni sem ég fæ í dag koma aðallega úr grænmeti en næringin mín kemur úr mörgu fleiru, en ég er ekki alveg með þetta 100 prósent. Ég skráði allt niður fyrst og ef maður nennir að skuld­binda sig til þess, þá verður þetta svo miklu auð­veldara. Þá veit maður hvað maður á að borða og verður miklu minna svangur,“ segir hún.

„Ég er svo­lítið mikil öfga­manneskja og fyrir með­gönguna var ég annað hvort í ræktinni og að passa hvað ég borðaði eða þá að ég var ekki í ræktinni og borðaði það sem ég vildi. Kannski ekki hollasta eða mest til fyrir­myndar en þannig æxlaðist þetta hjá mér. Með­gangan mín gekk rosa­lega vel, ég fékk að vísu grindargliðnun en ég lagaðist af henni hjá hnykkjara. Mér leið dá­sam­lega og þetta er eitt það stór­kost­legasta sem ég hef gert þrátt fyrir að matar­æði mitt hafi verið tveir bragða­refir í viku og allt hitt sem mig langaði í. Kærastinn minn er með svo mikinn vilja­styrk að honum fannst þetta ekkert mál og skottaðist fyrir mig út í búð á öllum tímum, gerði allt fyrir mig og freistaðist aldrei,“ segir Stefanía.

Síðan Stefanía byrjaði á Ketó segist hún aldrei hafa átt jafn auð­velt með að létta sig. Áður fyrr hafi hún þurft að hafa mikið fyrir því að koma sér í gott form og hafði hún aldrei gaman af því.

„Ég hélt matar­dag­bækur og passaði mig á öllu. Það var ekkert skemmti­legt og það eina sem ég borðaði var kjúk­lingur og sætar kar­töflur. Á Ketó er allt svo gott, græn­meti er til dæmis allt gott ef það er steikt upp úr smjöri. Sætinda­þörfin minnkar líka ó­trú­lega mikið en ef maður er mikið fyrir sætindi þá er hægt að kaupa alls­konar sætt, súkku­laði, Ketó ís og kökur. Ég hef aldrei upp­lifað eins og mig skorti neitt eða eins og ég þurfi að banna mér eitt­hvað,“ segir hún.

Mataræðið hefur rosalega áhrif á líkamann

Stefanía hefur allt sitt líf rokkað upp og niður á vigtinni en undan­farin fimm ár hefur hún náð að halda sér í góðu formi að undan skyldri með­göngunni. Segir hún mikil­vægt að hver og einn finni hvað virkar fyrir sig þegar kemur að matar­æðinu en mælir hún ein­dregið með því að prófa Ketó.

„Það sem virkar best fyrir okkur er að eiga alltaf nokkra hluti í ís­skápnum. Við eigum til dæmis alltaf egg, kjöt, brokkolí, blóm­kál, blóm­káls­hrís­grjón, fisk, smjör, rjóma, ost og jarðar­ber. Svo kemst maður vel inn í þetta ef maður heldur sig við þetta í byrjun. Maður heldur að þetta sé geð­veikt mikið mál eins og að þurfa að baka pizzu­botna og annað en svo kemst þetta upp í vana og verður svo miklu auð­veldara,“ segir Stefanía og bætir við: „ Kærasti minn er svona allt eða ekkert týpa og hann á það til að taka hluti fyrir og prófa þá og þegar hann gerði það með Ketó fannst honum hann skýrari í hausnum og ein­beitingin hans varð betri. Ég er alveg sam­mála honum með það og svo líður manni betur í liðunum, upp­lifir ekkert slen, er heilt yfir bara miklu betri og hefur betri orku. Ég sef líka betur og allir þessir hlutir sem maður heyrir af eru svo sannir. Maður finnur muninn og hvað þetta hefur rosa­lega mikil á­hrif á líkamann.“

Stefanía hefur misst rúmlega 20 kíló á nýju mataræði
Mynd/Anton

Ketó­f­lensan svo­kallaða lagðist á Stefaníu í upp­hafi breytts matar­æðis en segir hún það hafa gengið yfir til­tölu­lega hratt.

„Ég passaði mig á því að drekka mikið af vatni og tók einnig inn sölt og stein­efni. Það var einn dagur þar sem ég var að­eins slappari en ekki alveg veik, bara að­eins orku­lausari, rétt á meðan ég var að komast yfir í ketósu á­standið. Svo er alveg magnað hvað maður verður allt öðru­vísi svangur, svengdar­til­finningin verður ekki jafn yfir­drifin. Áður varð ég alveg „han­gry“ en í dag lendi ég meira í því að muna allt í einu eftir því að ég þurfi að borða, þessi svengdar­til­finning er allt öðru­vísi. Stór hluti er líka að fasta og það er ekkert mál þegar maður vaknar ekkert svangur. Fastan hefur frá­bær á­hrif á líkamann og þá er svo mikill á­vinningur sem maður er kannski ekkert endi­lega að pæla í. Maður verður svo miklu skýrari, orku­meiri og ein­beittari,“ segir Stefanía.

Leyfði sér um jólin

Stefanía segist hafa fundið orkuna aukast dag frá degi og að tæpri viku eftir að hún komst í ketósu á­stand hafi hún fundið hvað líkami hennar tók matar­æðinu vel.

„Svona viku eftir að ég byrjaði fór ég að finna mun og um 2 vikum seinna fór ég að léttast svo ó­trú­lega hratt, það bara láku af mér kílóin og það var bara geggjaður plús. Fyrstu kílóin eru alltaf bara vatns­þyngd en í dag er ég búin að losna við alla þyngdina sem ég var með eftir með­gönguna og er að byggja mig upp. Síðasta sunnu­dag svindlaði ég, þó það sé ekki beint skemmti­legt orð, en þá þyngdist ég strax um eitt og hálft kíló sem var síðan farið viku síðar. Þetta hefur svona mikil á­hrif,“ segir hún og heldur á­fram: „ Ég myndi ráð­leggja fólki sem langar að prófa þetta að treysta sjálfu sér. Maður þarf bara að kynna sér þetta, standa við allt og hafa trú á sjálfum sér. Margir halda að þeir geti þetta ekki en það er til „substi­tu­te“ fyrir allt. Allur matur sem manni þykir góður er hægt að að­laga að þessu matar­æði og það á frekar að horfa á þetta til lang­tíma heldur en skamms tíma,“ segir Stefanía sem telur matar­æðið vera komið til þess að vera í sínu lífi.

„Mér líður svo ó­trú­lega vel. Ég leyfði mér að­eins núna um jólin en mér finnst á­vinningarnir svo góðir og ég finn hvað þetta hentar mér vel. Ég þarf minna að spá í því hvað ég er að borða, borða sjaldnar og miklu betri mat svo það er rosa­lega gott. Þannig að já ég held að þetta sé alveg komið til að vera.“

Nóg verður um að vera hjá Stefaníu á næsta ári en eftir ára­mót stefnir hún á að gefa út sín eigin lög á Epi plötu sem hún hefur verið að vinna að með Zoe vin­konu sinni.

„Ég hef aldrei áður gefið mitt eigið efni út en margir hafa beðið eftir því, þetta verður því mjög spennandi og skemmti­legt,“ segir Stefanía sem er einnig að vinna að fleiri spennandi verk­efnum sem hún má ekki segja frá í augna­blikinu.