Áhorfendur köstuðu glösum og flöskum að tónlistarmanninum Kid Cudi sem endaði með því að hann gekk af sviðinu.

Kid Cudi sem kom fram á tónlistarhátíðinni Rolling Loud í Miami átti að fylla í skarð tónlistarmansins Kanye West sem hafði afboðað komu sína með skömmum fyrirvara.

Kanye West og Kid Cudi eiga ekki í góðu sambandi þessa dagana en Cudi er góður vinur grínistans Pete Davidson sem er nú í sambandi við Kim Kardashian, fyrrverandi konu Kanye West.

Talið er að aðdáendur Kanye West, sem komnir voru til þess að sjá kappann hafi verið þeir sem köstuðu flöskum og glösum að Kid Cudi.

Kid Cudi varaði gesti hátíðarinnar ítrekað við áður en hann gekk af sviðinu. "Ef einn hlutur kemur upp á þetta svið í viðbót, þá labba ég burt!" sagði Cudi rétt áður en fleiri glös flugu að sviðinu.

Sjá má í myndbandi hér fyrir neðan hvernig atburðarásin þróaðist.

Kanye West með óvænta framkomu

Stuttu eftir að Kid Cudi gekk af sviðinu mætti síðan Kanye West sjálfur og spilaði fyrir áhorfendur ásamt tónlistarmanninum Lil Durk við mikinn fögnuð áhorfenda.

Verður því að teljast sem svo að Kanye hafi unnið þessa orrustu í stríði hans og Kid Cudi.