Raun­veru­leika­stjarnan Khloe Kar­dashian kom alveg af fjöllum þegar hún komst að því að orð­rómur, um að hún og körfu­bolta­maðurinn Tristan Thomp­son, barns­faðir hennar, væru trú­lofuð, væri á allra vörum. „Bíddu..hvað?“ skrifaði Khloe á Twitter og virtist vera alveg jafn hissa og fylgj­endur hennar.

„Ég fór á netið og meira að segja ég er ráð­villt,“ sagði Khloe og bætti við „Sem eru í raun mínar dag­legu hug­leiðingar um 2020. En í al­vöru..wtf lol fólk er bara að tala.“

Ó­trúr en enn í fjöl­skyldunni

Vanga­veltur um stöðu sam­bands Tristan og Khloe tóku kipp eftir að Tristan mætti í 36 ára af­mæli hennar á dögunum. Heimildar­menn E News segja kóróna­veiruna hafa fært parið saman á ný.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur körfu­­bolta­­maðurinn tvisvar sinnum verið Khloé ó­­­trúr en það vakti gífur­­lega at­hygli í mars á síðasta ári þegar upp komst að Thomp­son hefði átt í nánum kynnum við Jor­dyn Woods, bestu vin­­konu litlu systur hennar, Kyli­e Jenner.

Elskar hann enn

Í byrjun júní í fyrra ræddi Khloe um sam­band sitt við körfu­­bolta­manninn í raun­veru­­leika­þættinum Keeping Up With the Kar­dashians. Þar sagðist hún enn elska hann en að upp­á­tæki hans hafi rústað sam­bandinu.

Þá sagði Khloe einnig að Tristan hefði hótað sjálfs­vígi í texta­skila­­boðum til hennar eftir að upp komst um fram­hjá­haldið.