Bandaríski tónlistarmaðurinn Khalid hefur notið síðustu daga á Íslandi, í veðurblíðu undangenginnar helgar. Hann tróð nýlega upp á Coachella-tónlistarhátíðinni ásamt Billie Eilish þar sem hann flutti, meðal annars, dúettinn Lovely. Söngvarinn aflýsti nýlega tónleikaferðalagi um Rússland og stefnir á tónleikahald í Suður-Ameríku í júní.
Khalid hefur sex sinnum verið tilnefndur til Grammy-verðlauna, hann hefur fengið sex Billboard Music-verðlaun, hann hefur þrívegis hlotið Amerísku tónlistarverðlaunin og árið 2019 tilnefndi Time tímaritið Khalid meðal 100 áhrifamestu einstaklinga heims.

Aðspurður um síðustu tvö ár og líðan í heimsfaraldrinum, svarar hann. „Ég tók risastórt skref til baka og gerði vörutalningu hjá sjálfum mér. Hvert ég vildi stefna með ferilinn minn, listrænt séð, og hvernig tónlist mig langaði að gera,“ segir Khalid.
„Mér fannst, í upphafi heimsfaraldursins, að tónlistin sem ég var að gera væri sorgleg og niðurdrepandi en á sama tíma full vonar,“ segir hann.
Frá dökkum tónum yfir í ljósa
Khalid segist hafa átt tilfinningalega erfitt í upphafi faraldurs og glímt við ótta. „Ég var mjög hræddur. Í því ferli þurfti ég að fara í gegnum grámann, til að byrja að sjá litina í lífinu á ný. Tónlistin sem ég hef verið að gera undanfarið … það er sturlað að eitt laganna sem ég gerði um miðbik heimsfaraldursins hefur íslenska strengjasveit inni í laginu,“ segir hann og hlær.
„Já! Einn af bestu vinum mínum, Chrome Sparks, hann er reglulega á Íslandi og elskar að vera hérna. Hann kom hingað og fékk íslenska strengjasveit til að flytja alla strengina í laginu. Þetta er í alvörunni eitt af mínum uppáhaldslögum á ferlinum.“
Núna sé Khalid hins vegar á allt öðruvísi stað. „Núna er ég á tímabili þar sem allt sem ég skapa er svo bjart og gleðilegt og smitar frá sér. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa fundið þetta ljós í myrkrinu.“
Stefnir á lagasmíðar á Íslandi
Í beinu framhaldi segist Khalid hafa stefnt á að gera tónlist hér á landi. „Ég hafði reyndar stefnt á að gera tónlist á Íslandi! Ég er búinn að ákveða að gera lag hérna. Það verður geggjað að geta samið og tekið upp í svona borg sem fyllir mig innblæstri,“ segir hann. Þess má geta að Khalid er yfirlýstur aðdáandi söngkonunnar Glowie og segist aðspurður hafa áhuga á að vinna með henni.
Hann lætur vel af Íslandsdvölinni. Veðrið sé búið að vera frábært. „Ég elska rigningu,“ segir hann og vísar til veðursins þá stundina. „En ég var mjög hrifinn af því að geta farið út og séð borgina. Við keyrðum í einn og hálfan tíma og skoðuðum Geysi og Gullfoss.“
Innblástur á flekaskilum
Hann segist hafa fundið helli fyrir utan borgina og farið í langa gönguferð. „Mér fannst það magnað. Ég týndi mér í hugsunum um forsögulega tíma. Hugsaði um dýr gangandi um á einhverjum forsögulegum stað, karla og konur að ferðast langar vegalengdir og leita skjóls í hellisskútum. Mér fannst það svo fallegt,“ segir söngvarinn dreyminn.
„Þetta fyllti mig innblæstri, að vera á jaðri norðuramerísku flekaskilanna. Það er eitthvað sem fólk frá Bandaríkjunum fær ekki endilega að upplifa. Það að hafa fengið að komast hingað á vængjum tónlistarinnar segir mikið um það hversu mikið ég hef vaxið sem tónlistarmaður.“
Khalid segist í framhaldinu mjög þakklátur fyrir tækifæri til að heimsækja landið. „Ég er svo þakklátur fyrir að vera í stöðu til að vera á svona fallegum stað eins og Íslandi.“
Viðtalið má sjá í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.