Banda­ríski tón­listar­maðurinn Khalid hefur notið síðustu daga á Ís­landi, í veður­blíðu undan­genginnar helgar. Hann tróð ný­lega upp á Coachella-tón­listar­há­tíðinni á­samt Billi­e Eilish þar sem hann flutti, meðal annars, dúettinn Lovely. Söngvarinn af­lýsti ný­lega tón­leika­ferða­lagi um Rúss­land og stefnir á tón­leika­hald í Suður-Ameríku í júní.

Khalid hefur sex sinnum verið til­nefndur til Gram­my-verð­launa, hann hefur fengið sex Bill­board Music-verð­laun, hann hefur þrí­vegis hlotið Amerísku tón­listar­verð­launin og árið 2019 til­nefndi Time tíma­ritið Khalid meðal 100 á­hrifa­mestu ein­stak­linga heims.

Billy Ellish og Khalid á Coachella-hátíðinni í síðasta mánuði.
Fréttablaðið/Getty

Að­spurður um síðustu tvö ár og líðan í heims­far­aldrinum, svarar hann. „Ég tók risa­stórt skref til baka og gerði vöru­talningu hjá sjálfum mér. Hvert ég vildi stefna með ferilinn minn, list­rænt séð, og hvernig tón­list mig langaði að gera,“ segir Khalid.

„Mér fannst, í upp­hafi heims­far­aldursins, að tón­listin sem ég var að gera væri sorg­leg og niður­drepandi en á sama tíma full vonar,“ segir hann.

Frá dökkum tónum yfir í ljósa

Khalid segist hafa átt til­finninga­lega erfitt í upp­hafi far­aldurs og glímt við ótta. „Ég var mjög hræddur. Í því ferli þurfti ég að fara í gegnum grámann, til að byrja að sjá litina í lífinu á ný. Tón­listin sem ég hef verið að gera undan­farið … það er sturlað að eitt laganna sem ég gerði um mið­bik heims­far­aldursins hefur ís­lenska strengja­sveit inni í laginu,“ segir hann og hlær.

„Já! Einn af bestu vinum mínum, Chrome Sparks, hann er reglu­lega á Ís­landi og elskar að vera hérna. Hann kom hingað og fékk ís­lenska strengja­sveit til að flytja alla strengina í laginu. Þetta er í al­vörunni eitt af mínum upp­á­halds­lögum á ferlinum.“

Núna sé Khalid hins vegar á allt öðru­vísi stað. „Núna er ég á tíma­bili þar sem allt sem ég skapa er svo bjart og gleði­legt og smitar frá sér. Ég er svo þakk­látur fyrir að hafa fundið þetta ljós í myrkrinu.“

Stefnir á laga­smíðar á Ís­landi

Í beinu fram­haldi segist Khalid hafa stefnt á að gera tón­list hér á landi. „Ég hafði reyndar stefnt á að gera tón­list á Ís­landi! Ég er búinn að á­kveða að gera lag hérna. Það verður geggjað að geta samið og tekið upp í svona borg sem fyllir mig inn­blæstri,“ segir hann. Þess má geta að Khalid er yfir­lýstur að­dáandi söng­konunnar Glowi­e og segist að­spurður hafa á­huga á að vinna með henni.

Hann lætur vel af Ís­lands­dvölinni. Veðrið sé búið að vera frá­bært. „Ég elska rigningu,“ segir hann og vísar til veðursins þá stundina. „En ég var mjög hrifinn af því að geta farið út og séð borgina. Við keyrðum í einn og hálfan tíma og skoðuðum Geysi og Gull­foss.“

Inn­blástur á fleka­skilum

Hann segist hafa fundið helli fyrir utan borgina og farið í langa göngu­ferð. „Mér fannst það magnað. Ég týndi mér í hugsunum um for­sögu­lega tíma. Hugsaði um dýr gangandi um á ein­hverjum for­sögu­legum stað, karla og konur að ferðast langar vega­lengdir og leita skjóls í hellis­skútum. Mér fannst það svo fal­legt,“ segir söngvarinn dreyminn.

„Þetta fyllti mig inn­blæstri, að vera á jaðri norður­amerísku fleka­skilanna. Það er eitt­hvað sem fólk frá Banda­ríkjunum fær ekki endi­lega að upp­lifa. Það að hafa fengið að komast hingað á vængjum tón­listarinnar segir mikið um það hversu mikið ég hef vaxið sem tón­listar­maður.“

Khalid segist í fram­haldinu mjög þakk­látur fyrir tæki­færi til að heim­sækja landið. „Ég er svo þakk­látur fyrir að vera í stöðu til að vera á svona fal­legum stað eins og Ís­landi.“

Við­talið má sjá í Frétta­vaktinni á Hring­braut í kvöld.