Tónlistarmaðurinn og leikarinn Júlí Heiðar Halldórsson gaf út lagið Gamlárskvöld ásamt unnustu sinni, söng- og leikkonunni Þórdísi Björk Þorfinnsdóttur á dögunum en textinn er saga úr lífi þeirra frá gamlárskvöldi árið 2020.

„Þetta voru fyrstu áramótin sem við Dísa vorum að hittast og þar sem ég er ógeðslega rómantískur þá sá ég fyrir mér að ná að kyssa hana á miðnætti,“ upplýsir Júlí.

„Sambandið okkar var ekki komið neitt mjög langt svo ég var í Þorlákshöfn hjá foreldrum mínum og hún í Fossvoginum hjá foreldrum sínum. Ég vildi klára skaupið með fjölskyldunni minni og bruna svo til Reykjavíkur og ná kossinum,“ segir hann sem hafði aðeins 40 mínútur að koma sér á milli staða.

„Ég var kominn til Reykjavíkur tíu mínútur í tólf og eina mínútu fyrir tólf keyrði ég inn í götuna hennar. Þá var ég búinn að fara yfir á þremur rauðum ljósum. Ég hljóp upp að hurðinni og bankaði en það heyrði enginn í bankinu út af flugeldunum,“ segir Júlí og heldur áfram: „Til að toppa það sendi Dísa mér skilaboð akkúrat á meðan ég var að banka og sagði mér að hún væri að svæfa son sinn.“

Þá hafi hann labbað út í bíl afar svekktur en hugsaði sér að hann myndi ná miðnæturkossinum, sem hann svo gerði.

Umrætt lag er ábreiða af lagi eftir Frank Loesser og frá árinu 1947 og er þekktasta útgáfan líklegast með Ellu Fitzgerald frá 1960 að sögn Júlí.

Júlí Heiðar bað um hönd Þórdísar í maí.
Fréttablaðið/Aðsend

Fyrstu jólin saman

„Við verðum saman í ár og það er afskaplega notaleg tilhugsun,“ segir Júlí Heiðar sem verður í fyrsta skipti með Þórdísi og syni hennar á aðfangadag.

„Ég held að tengdó ætli að henda í hamborgarhrygg á fyrir okkur á aðfangadag en hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Bjartur stjúpsonur minn verður með okkur á aðfangadag en minn peyi mætir í hús á jóladag og þá ætlum við að skella okkur í jólaboð til Þorlákshafnar með minni fjölskyldu.“