Búast má við að fleiri Húsvíkingar verði áberandi í útsendingu RÚV frá Óskarsverðlaunahátíðinni í kvöld en þær sautján söngdívur sem flytja lagið Husavik ásamt söngkonunni Molly Sandén en lagið Husavik er tilnefnt til verðlauna eins og frægt er orðið.

„Húsvíkingar redda hlutunum“ varð Örlygi Hnefli Örlygssyni, athafnamanni á Húsavík, að orði í Facebook grúbbu Húsvíkinga í dag. Í færslunni lýsir Örlygur því hvernig bæjarbúar tóku málin í eigin hendur þegar það leit út fyrir að RÚV myndi ekki sýna frá verðlaununum.

Húsvísk fyrirtæki leggjast á árar

„Um miðja síðustu viku leit út fyrir að ekki yrði sýnt frá Óskarnum hér á landi, sem hefði verið mikil vonbrigði. Þá hringdi í mig þessi mikli meistari Haukur Sigurgeirsson og var með hugmynd, að safna saman fyrirtækjum á Húsavík til að fylla alla auglýsingatíma á RÚV svo hægt væri að kaupa Óskarinn. Og hann gerði það!“

„Samfélagið okkar er ríkt af fólki sem leysir málin - gleymum því aldrei.“

Þakkaði Örlygur Hauki og bætti við: „Samfélagið okkar er ríkt af fólki sem leysir málin - gleymum því aldrei. Njótið kvöldsins gott fólk.“

Knappur tími fyrir RÚV

„Ég sá bara fréttir um það hjá Örlygi að Óskarinn yrði ekki sýndur. Ég spurði hann þá hver staðan væri og hvort hann vissi hvað þetta myndi kosta,“ segir Haukur Sigurgeirsson, en Fréttablaðið náði tali af honum þegar hann var að stíga upp úr hinum rómuðu sjóböðum bæjarins.

„Það sem var vandamálið var að það var knappur tími til að selja auglýsingar og það vita allir að það er ekki brjálað áhorf á þetta.“

„Hugmyndin var fyrst að reyna kaupa þetta og sýna þetta en á svipuðum tíma var RÚV að landa samningi við Disney um að fá að sýna þetta,“ segir Haukur og lýsir vandamáli RÚV:

„Það sem var vandamálið var að það var knappur tími til að selja auglýsingar og það vita allir að það er ekki brjálað áhorf á þetta.“

„Tókum okkur saman og hentum í auglýsingu“

Haukur segist svo hafa sagt Örlygi að hann gæri reddað fjármagni í auglýsingar.

„Ég er með fyrirtæki sjálfur sem er að auglýsa. Svo tók Norðursigling, hvalaskoðunarfyrirtæki, þátt í þessu og Gamli Baukur, sem er veitingastaður við höfnina. Svo er Örlygur sjálfur með Cape hótel," segir Haukur. Sjóböðin hafi svo bæst við og þessir aðilar hafi tekið sig saman og hent í auglýsingu.

„Þannig við tókum okkur saman og hentum í auglýsingu“

Örlygur var tengiliður við RÚV og batt þetta allt saman, að sögn Hauks.

„Hann heyrði í RÚV og sagði við getum reddað auglýsingum í þessi slott. Hann var kveikjan að þessu og ástæðan fyrir því að þetta náði að bjargast,“ segir Haukur.

„Svo þarf líka bara gera vel við samfélagið og hafa gaman“ segir Haukur að lokum en hann reiknar með því að það verði nóg af áhorfsveislum á Húsavík í kvöld.

Ákafi Húsvíkinga í Óskarsherferð sinni hefur vakið heimsathygli undanfarnar vikur og fjallað hefur verið um herferð bæjarbúa í stærstu miðlum heims, þar á meðal í New York Times, BBC, NBC, Veriety og Washington Post. Á síðastnefnda miðlinum er umfjöllunin um Húsvaík sú mestlesna í Evrópufréttum.

Óskarsherferð Húsvíkinga hefur vakið heimsathygli.