Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar Bryndísi Stellu Birgisdóttur innanhússhönnuð í stórglæsilega penthouse íbúð hennar á Mýrargötuna sem hún hannaði og innréttaði sjálf eftir sínum draumastíl. Þar er mínimalískur stíll í forgrunni í bland við ólíkan efnivið og hráleika.

Stella, eins og hún er alltaf kölluð, keypti íbúðina ásamt manninum sínum, Jakobi Helga Bjarnasyni, síðastliðið vor og var hún tilbúin til innréttinga.

Stella fékk að ráða öllu og segist vera ótrúlega þakklát fyrir það. Stella er þekkt fyrir sinn stílhreina stíl sem einkennist af hráleika, jarðlitum, formum og skemmtilegri blöndu af efnivið.

Síðan liggur leið Sjafnar á veitingastaðinn Monkeys sem opnaði á síðasta ári og hefur vakið athygli fyrir framandi og frumlega matargerð með áhrifum frá Japan og Perú. Og ekki síst fyrir ævintýralega upplifun eins og þema staðarins býður uppá.

Sjöfn hittir þar Gunnar Rafn Heiðarsson rekstrarstjóra staðarins og Snorra Grétar Sigfússon sem fletta ofan af sögu staðarins, hönnuninni og matargerðinni sem býður meðal annars upp á rétti sem ekki hafa sést hér á landi áður.

„Þegar við ákváðum að taka þennan stað eftir að hafa skoðað hann nokkru sinnum ákváðum við strax að þétta hann frekar og auka hlýleikann,“ segir Gunnar og bætir því við að þeir hafi skipt honum upp í tvö hólf, Kokteilabarinn og veitingastaðinn. „Við vorum mjög stórhuga og með margar brjálæðislegar hugmyndir þegar kom að því að hanna staðinn og ákveða þemað svo við fengum til liðs við okkur Leif Welding til sjóða saman hugmyndir okkar og halda okkur á jörðinni,“ segir Gunnar og er ánægður með útkomuna.

Þátturinn Matur & Heimili er frumsýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19.00 í kvöld og fyrsta endursýning er klukkan 21.00.