Kex Hostel fagnar ellefu ára afmæli með árlegum útitónleikum á laugardag. Óli Dóri, viðburðastjóri Kexins, segir tónleikana eiga sér langa sögu.

„Þetta var fyrst haldið hérna árið 2012 og svo kom smá pása árið 2018,“ segir hann. Síðan hafi hefðin verið endurvakin á tíu ára afmæli staðarins í fyrra.

Óli Dóri segir að hér sé um að ræða eina skemmtilegustu tónlistarhátíð borgarinnar. Dagskráin hefst klukkan tvö um daginn og stendur til miðnættis, með nýju atriði á klukkustundar fresti. Aðgangur er ókeypis.

„Þetta er í portinu hjá okkur og við krossum fingur að veður verði gott. Eins og er þá er spáð rigningu, en það getur breyst,“ segir Óli Dóri brattur. Því er ekki úr vegi að hvetja gesti til að klæða sig eftir veðri.

Elín Hall er meðal þeirra sem koma fram á tónleikum Kex Hostel
Mynd/Ernir

Sérhæfa sig í ungu og upprennandi listafólki

Viðburðastjórinn segir dagskrána fjölbreytta, en segir staðinn að vissu leyti sérhæfa sig í upprennandi listafólki.

„Við erum mikið með nýja listamenn og þá sem eru á hraðri uppleið. Við erum að hlúa að grasrótinni,“ segir hann. Þetta árið koma fram Aron Can, Andy Svarthol, Celebs, Cyber, Elín Hall, Inspector Spacetime, Johnny Blaze & Hakki Brakes, RAKEL & Zaar, Red Riot og Superserious.

Hljómsveitin Cyber mun einnig koma fram á tónleikunum.
Mynd/ValgarðurGíslason

Allir velkomnir

Óli Dóri segir viðburðinn í fyrra hafa verið einkar vel heppnaðan og vel sóttan. „Það var vel mætt í fyrra og straumur fólks allan daginn, og mjög góð stemning. Þetta er svona eins og afmælishátíð,“ segir hann og bætir við að Kex Hostel bjóði gestum upp á léttar veitingar.

Aðspurður segir hann að allir séu velkomnir, viðburðurinn sé fjölskylduvænn og fólki sé að sjálfsögðu velkomið að taka börnin með.