Bandaríski leikarinn Kevin Hart hefur tilkynnt að hann hafi hætt við að verða kynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni sem fer fram í febrúar á næsta ári vegna ósættis sem upp hefur komið vegna ummæla hans um samkynhneigð.

Í tilkynningu frá leikaranum segir hann að hann vilji ekki að nærvera hans dreifi athyglinni og að „honum þyki fyrir því að hafa sært fólk.“ Tilkynnt var um Hart sem kynni á þriðjudaginn síðastliðinn.

Ósættið með Hart sem kynni kom upp eftir að tíst sem leikarinn birti fyrir áratug síðan þar sem hann lýsti fordómafullum skoðunum í garð samkynhneigðra voru gerð opinber að nýju. Þá hefur leikarinn sem einnig er uppistandari oft gert grín að samkynhneigð á þann veg sem þykir óviðeigandi. 

Hart hefur lýst því yfir að umræddir brandarar séu hluti af fortíð hans og að hann geri sér grein fyrir því að slíkt viðgangist ekki í dag. Fyrr í vikunni leit út fyrir að leikarinn myndi reyna að sitja „storminn“ af sér en á fimmtudagskvöld birti hann myndband þar sem hann gagnrýndi „alla neikvæðu orkuna í samfélaginu,“ segir Hart í myndbandi sem má sjá hér að neðan.