Óperusöngkonan Ísabella Leifsdóttir lærði ung að gera útikerti með móður sinni sem safnaði kertaafgöngum. „Mamma gerði alltaf útikerti fyrir jólin og þannig lærði ég hjá henni sem barn að búa þau til og þótti alltaf mjög spennandi. Ég gerði svo slíkt hið sama sjálf eftir að ég fór að búa en smám saman fór ég að gera kerti fyrir vini og vandamenn og þannig vatt það upp á sig.“

Hún segir gaman að koma lífi í ílát sem sitja á hillum nytjamarkaða, svo sem sykurkör og mjólkurkönnur fyrir innikertin og svo ýmis konar málmílát sem hefur fallið á fyrir útikertin. „Mikið af gullfallegum kopar og messing situr á hillum nytjamarkaða því fólk kann ekki eða nennir ekki lengur að pússa en ég elska að sjá hlutina fara að glansa aftur.“

Sykurkör og mjólkurkönnur fá meðal annars nýtt hlutverki á heimili Ísabellu.

Hefur lengi skapað í höndunum

Ísabella hefur unnið við sviðslistir frá barnæsku en hefur líka alltaf verið að skapa hluti í höndunum, hvort heldur myndlist eða handverk ýmis konar. „Ég hef mikinn áhuga á umhverfismálum og snýst listsköpunin mikið um að endurnýta og finna nýjan tilgang fyrir hluti. Þannig hef ég verið að skapa undir merkjum Pink Upcycling í mörg ár, meðal annars kertin mín en nýverið hef ég einnig verið að gera upp og skapa nýtt skart úr gömlu.“

Fyrir henni eru því kerti ómissandi hluti jólanna „enda þurfa allir í það minnsta kerti og spil fyrir jólin,“ að hennar sögn. Hér gefur hún lesendum leiðbeiningar um gerð útikertis.

Mikið af gullfallegum kopar situr á hillum nytjamarkaða víða um land. Ísabella er dugleg að sækja sér hráefni þangað.

Uppskrift að útikerti

Hún segir einfalt að gera útikerti. „Finnið eldfast ílát en ég mæli með gömlum pottum í útikertin en niðursuðudósir virka líka vel. Safnið saman kertaafgöngum í pott, tegundir skipta ekki máli. Bræðið á lágum hita þar til allt er bráðnað.“ Næst er kveik stillt upp í miðju íláti. „Til að kveikurinn haldist á sínum stað má nota prjón sem stungið er í gegnum kveikinn og hann látinn liggja yfir brún ílátsins. Mikilvægt er að kveikurinn sé 100% náttúrulegur en ég mæli með bómullarreipi.“ Breidd kveiks þarf að vera um 1 cm að þvermáli í flest útikerti. „Hellið vaxinu í eldfasta ílátið. Gott er að gera það í nokkrum lögum til að þráðurinn haldist beinn. Látið kólna yfir nótt. Klippið kveikinn í passlega lengd og njótið. “

Heimagerð kerti setja notalegan svip á heimilið.