Ásgeir Kolbeinsson, fjölmiðla- og viðskiptamaður, er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar en í þættinum fer Ásgeir um víðan völl. Hann fer meðal annars yfir eitt af stærstu verkefnum sínum á undanförnum árum þegar eigendaskipti urðu á skemmtistaðnum Austur sem enduðu í illu.

„Það er rosalegasta verkefni lífs míns,“ segir Ásgeir um eigendaskiptin. „Ég vil ekki tala of mikið um þetta, en það er magnað hvað það er hægt að ,,manipulata” íslenska ríkið, dómskerfið og hvað sem er, bara ef þú ert nógu mikill hryðjuverkamaður.“

„Þeir aðilar sem ég var að berjast gegn þar náðu ótrúlegum árangri með klækjum og að fara á bak við kerfið. Og kerfið stóð bara ekki í fæturnar þegar kom að því að leysa þetta mál,“ segir Ásgeir enn fremur en hluti málsins er að sögn Ásgeirs enn í kerfinu.

Árin eftir martröð fyrir alla

Hann segir málið allt hafa verið með hreinustu ólíkindum og vísar til þess þegar hann beið eftir deiluaðila á þriðju hæð skemmtistaðarins á sólríkum eftirmiðdagi, vitandi að við tækju nokkrir klukkutímar af „einhverjum viðbjóði.“

„Ég horfði út um gluggann og sá þar mann á reiðhjóli leggja fyrir utan vínbúðina og fara inn og koma með vínflösku út. Ég man að ég hugsaði hvað þessi hefði það gott að vera að fara að eiga gott kvöld á meðan ég var á leiðinni í eitthvað djöfulsins maraþon rifrildi. Þetta var lýsandi fyrir þessi ár sem tóku við og þessa martröð alla.”

Lærir að taka hlutum af æðruleysi

Ýmislegt annað hefur á daga hans drifið frá þeim tíma en hann lýsir því að hann hefur oft lent á milli tannanna á fólki. Með tímanum hafi hann síðan lært að taka því af æðruleysi þó það sé alltaf leiðinlegt þegar fólk hefur slæma hluti að segja. Þrátt fyrir að hann vilji alltaf hafa alla góða hefur hann lært að það sé ekki hægt að þóknast öllum.

„Það eru kannski hundrað manns í veislu og 99 finnst þú frábær, en það er einn sem finnst þú alveg ömurlegur og það sem maður gerir er að vaða í þennan eina og reyna að laga hann. Svo áttar maður sig á því að það er hvorki eitthvað sem maður á að gera, né eitthvað sem er hægt að breyta,“ segir Ásgeir. „Maður lærir með aldrinum og tímanum og verður alltaf betri og betri í þessu.”

Þáttinn í heild sinni má finna hér fyrir neðan en þar ræða Ásgeir og Sölvi um feril Ásgeirs, fjölmiðla, viðskipti, ástríðu í lífinu og margt fleira.