Steinunn Ólína stýrir fjölskylduþættinum Stóra sviðinu sem byrjar á Stöð 2 í kvöld en þar etja þjóðþekktir gestir kappi í tveimur liðum sem Steindi og Auddi Blö stýra.

„Hún leggur fyrir okkur listrænar áskoranir þar sem við erum að hennar sögn alltaf að reyna að láta taka okkur alvarlega sem listamenn. Sem ég held að sé nú mikil kaldhæðni hjá henni,“ segir Steindi og hlær.

„Við erum með fullt af skemmtilegum gestum og í fyrsta þættinum í kvöld eru það Anna Svava og Saga Garðarsdóttir. Saga er með mér og Anna er með Audda og við förum í gegnum þrjár áskoranir. Þær eru mismunandi milli þátta en við erum að fara að keppa í hvor okkar geri betri listgjörning, betri stuttmynd og betri töfrasýningu á sviðinu.

Þetta er allt saman gert eins og í gamla daga og áhorfendur í sal dæma okkur á staðnum. Taka bara upp símana, kjósa og niðurstöðurnar koma um leið. Þannig að það er í höndum áhorfenda hver vinnur í hvert skipti.

Við leggjum upp með þá pælingu að reyna að gera hinn fullkomna fjölskylduskemmtiþátt og það á að vera eitthvað fyrir alla í þessum þáttum.Þótt maður sé auðvitað fyrst og fremst með það bak við eyrað að maður er að reyna að gera skemmtiþátt þá brýst keppnisskapið út.

Sérstaklega þegar þú ert að keppa á móti Audda því hann er kolruglaður þegar kemur að þessu. Það er mikill keppnisandi í honum,“ segir Steindi.

„Þessi keppnisandi kemur líka hjá gestunum sem halda að þeir séu að koma í hefðbundinn skemmtiþátt og svo allt í einu eru allir orðnir kolvitlausir og vilja vinna.“