Luca Hänni, keppandi Sviss í Eurovision söngvakeppninni, mætti á dögunum í viðtal til svissneska fréttablaðsins Blick og fékk blaðið hann meðal annars til þess að horfa á og hlusta á þrjú lög úr keppninni í fyrsta sinn en þar var framlag Íslands eitt laganna og það er óhætt að segja að Luca hafi verið hrifinn.

Í myndbandinu, sem má sjá hér að neðan, bregst söngvarinn við á þýsku við framlagi Frakklands, laginu „She Got Me“ með Bilal Hassani og framlagi Kýpur, „Replay“ með söngkonunni Tamta. Hann er hrifinn af báðum lögum en það er nokkuð ljóst að framlag Hatara kom honum einkar mikið á óvart.

Sjá einnig: Tíu sigurstranglegustu lögin í Eurovision

Svipbrigði hans benda til þess að hann sé mitt á milli þess að vera ringlaður, orðlaus og hissa. Í þýðingu aðdáendasíðunnar wiwibloggs kemur fram að hann er mjög hrifinn og má auk þess sjá hann gera heiðarlega tilraun til að syngja með laginu. 

„Þetta er algjörlega öðruvísi og mjög hugrakkt. Þetta er ekki minn persónulegi stíll en það er hins vegar ekkert vandamál. Það er alveg víst að þeir munu skera sig úr og rústa sviðsframkomunni! Ég er mjög forvitinn að sjá þá!“

Þá segist Luca vera afar spenntur að hitta afganginn af keppendunum í maí en sjálfum er honum spáð góðu gengi af veðbönkum og er hann í 4. sæti samkvæmt veðbankastuðlum. Hann hefur sjálfur sagt að hann vonist til að rífa Sviss í gang í keppninni en landið hefur ekki komist upp úr undanúrslitunum síðan árið 2014, líkt og Ísland.