Hönnunarmars fer af stað á miðvikudag, þó að komið sé fram í maí. Meðal sýninga á hátíðinni er afrakstur hönnunarsamkeppni á vegum FÍT, þar sem keppt er um tákn fyrir íslensku krónuna. Þess má til gamans geta að nýjustu gjaldmiðlamerki sem samþykkt hafa verið eru merki bitcoin rafmyntarinnar og gjaldmiðils Kirgistan, som, árið 2017.
Stærsta land í heimi
„Verkefnið byrjaði fyrir tveimur árum síðan, sem hugmynd að skemmtilegu verkefni fyrir félagsmenn FÍT,“ segir Gísli Arnarson, formaður félagsins. „Það er alltaf talað um að þeir sem eigi gjaldmiðlatákn séu þessar stóru þjóðir heimsins, og við, sem stórasta land í heiminum með okkar stóra egó, höfum ekki átt þetta tákn. Sem er svolítið skrýtið,“ segir Gísli sposkur.
Hann bætir við að ekki vanti þjóðina getuna eða hönnuði í verkið. „Þetta er skemmtilegt verkefni og ekkert því til fyrirstöðu að eiga svona merki fyrir íslensku þjóðina,“ segir hann.
Samstarf með Seðlabankanum
Að sögn Gísla ritaði stjórn FÍT hugmyndina upp og fór næst á fund með Seðlabankanum, sem samþykkti að styrkja verkefnið. „Enda gefur hann út íslensku krónuna,“ segir hann.
„Við ákváðum að hafa þetta fyrir félagsmenn, til að styrkja félagið. Það eru um 200 meðlimir en það ættu að geta verið 400 manns, ef allt gengur upp og við höldum okkar stefnu,“ segir Gísli.
Þó tekur hann skýrt fram að sigur í samkeppninni þýði ekki að merkið verði sjálfkrafa merki íslensku krónunnar. „Það er Seðlabankinn sem gefur út krónuna og það þyrfti lagalega heimild til að breyta þessu,“ segir Gísli og bætir við að Alþingi þyrfti vafalaust að koma að slíkri breytingu.
„Við kynntum þetta þannig fyrir okkar félagsmönnum að þetta væri konsept-keppni og hver hönnuður héldi sínum höfundarrétti og eignarrétti að merkinu.“
Fjöldi tillagna kom á óvart
Sjötíu tillögur voru sendar í keppnina. „Við áttum ekki von á svona mörgum innsendingum. Fjöldinn var framar björtustu vonum, en við bjuggumst kannski við tuttugu innsendingum,“ segir Gísli.
Dómnefnd lauk störfum á föstudag en þar voru þrír fulltrúar frá FÍT og einn frá Seðlabankanum.

„Yfirlitssýning á HönnunarMars opnar á miðvikudaginn og þar verðum við með 16 merki sem við ætlum að sýna, sem eru handvalin af dómnefndinni.
Þetta eru ekki endilega sextán bestu merkin heldur er þetta flóra af merkjum sem vísa öll í ólíkar hugmyndir,“ segir hann.
„Það var verið að passa að það væru fleiri hugmyndir að merkjum, frekar en að hafa alltaf það sama. Við vorum þannig ekki bara með fiska-ká.“
Rúnir og Dana-tenging
Spurður hvort rauður þráður hafi verið í innsendingum, svarar Gísli: „Það er mikið verið að sækja í þjóðararfinn og element sem vega þungt í íslensku þjóðfélagi. Þar er fiskurinn í K-inu. Sumir fara í rúnirnar og aðrir leika sér með hvernig maður myndi skrifa KR hratt. Eða vísa í krónuna, sem er krúna og þar er verið að tengja okkur enn meira við Danina. Aðrir fara beint í gjaldmiðlatengingarnar.“
Aðspurður hvernig Seðlabankinn hafi tekið í hugmyndina að formlegri upptöku merkisins
„Fæst orð bera minnsta ábyrgð. En ég átti góð samtöl við Seðlabankann,“ segir hann. „En það er ekkert því til fyrirstöðu að við höldum