Mörg börn og unglingar verða á einhverjum tímapunkti kvíðin, og mörg þeirra komast yfir það án sérstakrar aðstoðar og læra þannig sjálf að takast á við aðstæðurnar. Önnur börn geta fests í vítahring kvíða og þurft sérstaka aðstoð.

„Kvíði er eðlileg tilfinning og hluti af öllu því litrófi tilfinninga sem manneskjur geta upplifað,“ segir Ester Ingvarsdóttir sálfræðingur hjá Auðnast. „Það má segja að kvíði sé nokkurs konar viðvörunarkerfi, sem undirbýr okkur undir að takast á við hættulegar aðstæður. Stundum fer viðvörunarkerfið í gang, jafnvel þó það sé ekkert hættulegt að gerast í raun og veru heldur eitthvað eins og að standa á sviði, fá lágt í prófi, hitta aðra krakka, eða fá á sig sýkla, en allt þetta getur kallað fram áhyggjur og líkamleg viðbrögð kvíða.“ Hún segir mikilvægt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða eðlilegan kvíða, eða kvíða sem er hamlandi fyrir barnið. „Kvíði getur  verið hjálplegur. Til dæmis ef þú ert að fara í próf og verður svolítið stressaður er líklegra að þú leggir meira á þig og fáir þar af leiðandi betri einkunn. Yfirleitt er litið svo á að ef börn eru hætt að gera hluti sem þau þurfa að gera, vilja gera, eða hefðu gott af að gera að kvíðinn sé orðinn hamlandi. Kvíði getur orðið til þess að sum börn verða hrædd og draga sig í hlé, en önnur verða jafnvel mjög reið eða pirruð við sína nánustu. Í sumum tilfellum er nóg að foreldrar átti sig á hver staðan er og grípi sjálf til aðgerða, en í öðrum tilfellum getur verið gott að leita til fagaðila til þess að fá viðeigandi meðferð og ráðleggingar.“

Hún segir ýmislegt sem foreldrar geta gert til að koma í veg fyrir kvíða, eða að stýra kvíða barnanna sinna í heppilegri farveg. „Eitt það fyrsta er að líta í eigin barm og kanna hvort þau séu á einhvern hátt að ýta undir kvíða barnsins. Kvíðnir foreldrar  gætu ómeðvitað gert börnin kvíðin með því að vara þau óhóflega mikið við hættum eða hjálpað þeim óafvitandi að forðast aðstæður sem þeim þykja erfiðar. Það að upplifa og komast yfir erfiðar aðstæður og tilfinningar í æsku þjálfar börn í því að takast á við vandamál á eigin spýtur seinna meir. Foreldrar geta verið fyrirmyndir barna sinna og kennt þeim markvisst að takast á við erfiðar aðstæður á heilbrigðan hátt, sýnt hugrekki með því að gera hluti sem þeim þykja sjálfum erfiðir og talað um hvernig þau fóru að því.“ Þá segir hún einnig mikilvægt að foreldrar ýti markvisst undir hugrekki og sjálfstraust barna sinna. „Ef barn vill alls ekki gera eitthvað, eins og að mæta í skólann eða fara í afmæli getur verið gott fyrir foreldra að vera hóflega ýtin, án þess að taka alla ábyrgð af barninu og sem dæmi láta barnið sjálft að hringja til að láta vita. Lykillinn að betri líðan er að gera það sem manni þykir erfitt í smáum skrefum  og skipta út áhyggjuhugsunum fyrir raunsæjar hugsanir. Þetta getur tekið tíma og má líkja við það að læra eitthvað nýtt, eins og til dæmis að hjóla, það er ekki nóg að horfa á aðra heldur þarft þú að æfa þig og með tímanum nærðu árangri.“

Foreldrar ættu að hvetja börn og unglinga til að gera hluti sjálf, fela þeim verkefni og ábyrgð í samræmi við aldur í stað þess að gera allt fyrir þau. „Með því móti erum við að undirbúa þau betur fyrir það sem koma skal. Notið tækifæri sem gefast til að fá börnin ykkar til að benda á hluti sem fóru vel, sem þau eru ánægð með og kennið þeim að benda á kosti sína og annarra, í stað þess að einblína á það sem fer úrskeiðis. En leyfið þeim líka að gera mistök  því það er eðlilegur og nauðsynlegur hluti þess að þroskast.“

Greinin birtist fyrst í sérblaði Heimili og skóla sem fylgdi Fréttablaðinu 13. september 2018.