Sólrún, eða Sóla eins og hún er yfirleitt kölluð, er fædd og uppalin í Stykkishólmi og ber hún bænum söguna vel.

„Ég hef náttúrulega ekki samanburð við aðra staði en mér fannst frábært að alast þar upp, sem sést best á því að aldrei fór ég suður. Ég segi það allavega þegar fólk spyr mig hvenær ég flutti þaðan,“ segir hún sposk.

„Mamma heitir (hét) Kristín Gunnbjörg Björnsdóttir, fædd og uppalin á Flateyri og pabbi heitir Ólafur Geir Þorvaðarson, fæddur og uppalinn í Flatey. Ég á tvö systkini, Jónu Lovísu Jóns-Ólafsdóttur, eða Lúllu, sem er prestur í Noregi og margfaldur Íslandsmeistari í vaxtarrækt og fitness, og Þorbjörn Geir Ólafsson, eða Bjössa, sem er tryggingasali, trúbador og körfuboltaþjálfari.“

Sóla í sjónum ásamt stjúpdóttur sinni Hörpu Hjartardóttur og syni hennar Jakobi Ara. MYND/AÐSEND

Eftir nám og heimavist á Skaganum og flutning til höfuðborgarinnar stóð Sólrún skyndilega frammi fyrir ákveðinni áskorun. „Þegar mamma flutti aftur til Flateyrar árið 1998 átti ég skyndilega engan samanstað í Stykkishólmi og fjárfesti í lítilli íbúð í Hólminum þar sem við fjölskyldan höfum verið allar götur síðan eða þar til fyrir fimm árum, þegar við þurftum að stækka við okkur. Við keyptum þá hús á Skúlagötunni sem við höfum dundað okkur við að gera upp.“

Fjölskyldan á góðri stundu. MYND/AÐSEND

Alltaf með neistann

Fjölskyldan er samsett og stór. „Elsta dóttir mín heitir Björg Steinunn Gunnarsdóttir og svo á ég tvær dætur með núverandi eiginmanni, Hirti Eiríkssyni. Þær heita Sigrún Björk og Kristrún Eir. Hjörtur átti tvær dætur fyrir þegar við rugluðum saman reitum árið 2004: Helgu Rún og Hörpu. Helga Rún á eina stelpu, Adríönu Líf og býr í Reykjanesbæ og Harpa á einn strák, Jakob Ara og býr í Svíþjóð. Ég er sem sagt löngu orðin amma og á fimm dætur samtals. Ég ól samt ekki stjúpdætur mínar upp og er meira eins og vinkona þeirra frekar en móðir. En vonandi sjá þær samt smá fyrirmynd í mér.“

Sóla hefur starfað sem enskukennari í Borgarholtsskóla síðan 1997. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Sólrún hefur starfað sem kennari um árabil. „Ég er búin að vera enskukennari í Borgarholtsskóla síðan 1997 og sér ekki fyrir endann á því. Kennslan hefur gefið mér svo margt, kannski meira en mig grunar. Samskipti við nemendur vega mjög þungt á vogarskálinni og mér finnst ég líka hafa mikilvægu hlutverki að gegna sem áhrifavaldur. Ég er mjög upptekin af hugtakinu mannkostamenntun (e. character education), það er hvernig hægt er að ýta undir dyggðir án þess að predika. Það geri ég til dæmis með því að velja áhugaverðar bókmenntir og texta um hluti sem virkilega skipta máli og eru til þess ætlaðir að koma í veg fyrir fordóma og ýta undir almennan siðferðisþroska. Þó að ég sé búin að starfa svona lengi finnst mér ég alltaf vera nýbyrjuð. Ég er alltaf með neistann, tilbúin til þess að prófa eitthvað nýtt og sjá hvernig það virkar.“

Sólrún ásamt kollegum sínum úr enskudeild Borgarholtsskóla. Frá vinstri: Ásta Laufey, Lilja Ágústa, Sóla og Íris Rut Agnarsdóttir. MYND/AÐSEND

„Sucker" fyrir dystopíu

Áhugamálin eru af ýmsum toga. „Eins og hinar fegurðardísirnar hef ég áhuga á útvist og ferðalögum og að lifa lífinu lifandi. Djók. Samt ekki,“ segir Sóla kímin.

„Mitt stærsta áhugamál hefur líklega alltaf verið bókalestur, bæði á íslensku og ensku. Ég er í bókaklúbbi sem heitir Aragata 14, sem samanstendur af stelpum/konum sem voru með mér í námi í enskudeildinni í HÍ fyrir löngu. Við veljum alltaf eina góða bók á ensku til þess að lesa og ræðum svo bókina og höfum gaman.“

Það er því ekki úr vegi að spyrja Sólu hvort hún eigi sér uppáhaldsbók.

„Þetta er erfið spurning! Ég get ekki alveg valið eina. Ég er að sjálfsögðu að kenna nokkrar uppáhaldsbækur eins og Lord of the Flies og The Kite Runner. Ég er mikill „sucker“ fyrir dystopíu sögum sem innihalda yfirleitt þjóðfélagsgagnrýni og pælingar um eðli mannfólksins. Það eru nokkrar sem ég get nefnt, eins og Brave New World eftir Aldous Huxley, Station Eleven eftir Emily St. John Mandel, The Road eftir John McCarthy, The Power eftir Naomi Alderman, 1984 eftir George Orwell og This Perfect Day eftir Ira Levin."

Enski rithöfundurinn Ian McEwan er í miklu uppáhaldi í bókaklúbb Sólu. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

„Ian McEwan er samt örugglega uppáhaldshöfundurinn minn af þessum ensku höfundum og við í bókaklúbbnum elskum hann allar. Við elskum reyndar líka Patrick Gale og mér finnst A Place Called Winter alveg rosalega góð bók. Hallgrímur Helgason er uppáhalds íslenski höfundurinn minn og svo get ég líka nefnt aðrar tærar lestrarnautnir eins og Karítas án titils og Óreiða á striga eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur og Híbýli vindanna og Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson. Og Jón Kalmann maður, nei, nú verð ég að hætta!“

En þegar þú varst yngri?

„Ég man að ég las mikið af bókum úr seríunni „Bláu drengjabækurnar“ og það var sérstaklega bók sem hét Klói sem stóð upp úr þar. Ég safnaði öllum Þjóðsögum Jóns Árnasonar, las Andrés Önd, Tinna og Ástrík (Ástríkur er bestur!) og svo höfðu bæði Elsku Míó minn og Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren mikil áhrif á mig.“

Sóla nýtur þess að róa ein út á fjörðinn með veiðistöng. MYND/AÐSEND

Of nísk til að splæsa í laxveiðileyfi

Sóla unir sér ekki síður á sjó. „Ég hef alltaf haft sjúklega mikinn áhuga á að veiða fisk, en er of nísk til þess að splæsa í laxveiðileyfi og fæ útrás fyrir veiðiþörfina í lélegum veiðivötnum og úti á sjó. Við hjónin erum búin að koma okkur upp fjölbreyttum bátaflota í Stykkishólmi, allt frá kajökum upp í fjölveiðiskipið Sólu og við nýtum hvert tækifæri til þess að fara út á sjó og veiða. Sumarhúsið okkar er staðsett nánast alveg við sjóinn í Stykkishólmi og það er fátt yndislegra en að vakna í logni, fá sér kaffisopa og róa ein út á fjörðinn með veiðistöng,“ segir hún dreymin.

Sóla á róðrarbretti ásamt dóttur sinni, Kristrúnu Eir, en þau hjónin hafa að hennar sögn komið sér upp fjölbreyttum bátaflota í Stykkishólmi. MYND/AÐSEND

„Mér finnst líka gaman að skrifa en er enn sem komið er bara skúffuskáld. Síðustu árin hef ég gert það á: zolazone.wordpress.com. Bloggið hefur þróast út í að verða myndskreytt útgáfa af lífi mínu og fjölskyldunnar með smá texta inn á milli. Svo er það Esjan. Ég fer mjög oft upp að Steini, brattari leiðina. Það er svo fín leið, engar hættur, ekkert klifur en tekur vel í rass og læri og fer afskaplega vel með öllu hinu.“

Samstarfskonur og Esjufélagar Sólu. Frá vinstri: Lilja Ágústa Guðmundsdóttir, Guðrún Guðjónsdóttir og Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir. MYND/AÐSEND

„Eitruð kvenmennska“

Fyrir nokkrum árum byrjaði Sóla, ásamt hópi samstarfskvenna í Borgarholtsskóla, að fara vikulega á Esjuna. „Við fundum eyðu í stundatöflunni, skutumst upp að Steini og svo aftur í vinnuna. Einn veturinn fórum við alla miðvikudagsmorgna, í öllum veðrum. Eins og þú getur ímyndað þér var kolniðamyrkur alla morgna þegar líða fór á haustið og flughálka í þokkabót, en við notuðum þá bara höfuðljós og Esjubrodda.“

Esjurápið hefur þó ekki alltaf gengið áfallalaust fyrir sig. Sólrún grínast með að andrúmsloftið hafi einkennst af „eitraðri kvenmennsku“.

„Við hnussuðum ef einhver vogaði sér að impra á því að kannski væri veðurspáin ekki nógu góð. En svo komumst við næstum því í hann krappan, ég og Ásta, vinkona mín og samstarfskona. Það var svakalegur hríðarbylur á Esjunni og við skriðum áfram á fjórum fótum án þess að segja aukatekið orð. Ég rétt sá glitta í höfuðljósið hennar Ástu af og til, þó að hún væri bara í eins metra fjarlægð. Eftir mikið pauf og þungar hugsanir var mér farið að ofbjóða þessar aðstæður og herti mig loks upp í að spyrja (eða æpa með spurnarróm): „Ásta, eigum við kannski að snúa við?“ Ég hélt að hún myndi hlæja að aumingjaskapnum en mér til mikillar furðu sagði hún strax (og gott ef það vottaði ekki fyrir feginleika í rödd hennar): „Já, veistu, ég held það.“ Ég held að ég hafi aldrei orðið jafn hissa og fegin á ævi minni,“ segir Sólrún og skellir upp úr.

Vinkonurnar Sólrún og Ásta Laufey árið 2013 að viðra sig í töluvert öruggari aðstæðum en í svaðilförinni á Esjunni. MYND/DANÍELRÚNARSSON

„Við snerum við en ævintýrið var ekki búið. Þrátt fyrir að hríðarkófið væri minna þegar neðar dró þekktum við alls ekki staðhætti. Allt var svo hvítt og ókunnugt og við að verða of seinar í kennslu! Við höfðum farið þessa leið mörg hundruð sinnum en vorum skyndilega rammvilltar. Seint og um síðir áttuðum við okkur á hvar við vorum staddar og rétt náðum að kenna blessuðum nemendum okkar, eldrjóðar í kinnum og reynslunni ríkari. Ásta skoðaði svo GPS-trakkið úr símanum sínum um kvöldið og sá að þegar við ákváðum loks að snúa við vorum við löngu búnar að skríða fram hjá Steini á leiðinni niður í einhvern djúpan dal. Eftir þetta höfum við verið varkárari og ófeimnari við að viðurkenna að Esjan er ekkert lamb að leika sér við, eins og reynslan sýnir.“

Sóla segir hreyfingu og útivist lífsnauðsynlega. MYND/AÐSEND

Náttúruleg geðhreinsun

Það er ástæða fyrir því að Sólrún hreyfir sig eins mikið og raun ber vitni. „Mamma var svona orkumikil eins og ég, fór út um allt á fjöll og á gönguskíðum, svona eins og mammviskubitið leyfði henni. En svo missti hún líkamlega heilsu upp úr fertugu, fékk vefjagigt og síþreytu og þjáðist svo af þunglyndi út af öllu saman. Veit þó ekki hvort kom á undan, þunglyndið eða vefjagigtin, en þetta fer oft saman. Hún gafst svo upp á lífinu 55 ára gömul og tók sitt eigið líf.“

Svarið fann hún í náttúrunni. „Þetta hefur auðvitað haft gífurleg áhrif á mig og þess vegna er ég mjög meðvituð um það að halda geðheilsunni með hreyfingu. Það mætti nota orðið „geðhreinsun“ (catharsis) um líðanina sem kemur með því að reyna á sig úti í náttúrunni. En ég vil taka fram að ég trúi því að áföll hafi gífurleg áhrif á líkamleg og andleg veikindi og ég hef verið heppnari en mamma mín. Hún var trúlofuð og nýorðin ólétt að systur minni þegar kærastinn hennar drukknaði á fiskibát frá Súðavík,“ segir Sólrún.

„Það var líklega lítið unnið úr því, bara haldið áfram á hnefanum eins og ég og Ásta á Esjunni í blindbylnum. Svo segir Lúlla systir, þá 18, mömmu frá því að hún hafi verið misnotuð af stjúpafa okkar frá 6 ára aldri til 12 ára aldurs. Ég veit ekki hvort mæður komist nokkurn tímann yfir slíkt.“

Sóla segir Kilimanjaro hafa verið heljarinnar upplifun. MYND/AÐSEND

Stjörnur og skrækjandi apar

Ljóst er að Sóla lætur fátt stoppa sig en fyrir rúmum fjórum árum ákvað hún, ásamt tveimur samstarfskonum og fleirum, að klífa Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku. „Við gengum á Esjuna sem aldrei fyrr til þess að æfa uppgöngu og niðurgöngu. Það var svolítið sérstakt að pakka niður bæði fyrir norðurpólinn og Sahara, sem sagt ullarfatnaði en líka bikiníi og sólarvörn. Við byrjuðum nefnilega gönguna í hitabeltisloftslagi og enduðum uppi á jökli í -20 gráðum! Svo fórum við í safari í nokkra daga eftir gönguna til þess að verðlauna okkur.

Fyrstu nóttina gistum við í stórum skála. Mér varð lítið svefnsamt og þurfti að læðast út í myrkrinu til þess að fara á kamarinn. Þar heyrði í skrækjandi öpum fyrir ofan mig og horfði svo upp í ótrúlega stjörnubjartan himininn og leið alveg stórkostlega (hrædd, kvíðin, ofsaglöð). Við vorum fimm saman í hóp og til að gera langa sögu stutta þá komumst við öll á toppinn á hæsta fjalli Afríku og hæsta frístandandi fjalli í heimi, eftir sex daga uppgöngu.“

Fjórar fræknar á toppi Kilimanjaro. Frá vinstri: Valgerður Ólafsdóttir, Lilja Ágústa Guðmundsdóttir, Guðrún Guðjónsdóttir og Sóla. MYND/AÐSEND

Súrefnisskortur og ofsamiga

„Mér leið ekki vel síðasta legginn. Við lögðum af stað rétt fyrir miðnætti á nýársdag. Það var auðvitað myrkur en allir með höfuðljós. Mér var svo illt í maganum að það fór mikil orka í að missa ekki bara eitthvað í buxurnar og ekkert klósett á leiðinni. Ég var reyndar orðin vön því að pissa hér og þar á leiðinni af því að við vorum að taka lyf til að auðvelda okkur að takast á við súrefnisskortinn. Ein af mögulegum aukaverkunum var svokölluð ofsamiga, sem við vorum búnar að hlæja alveg rosalega mikið að,“ segir Sólrún.

Sóla segir Maccu Picchu næst á dagskrá. MYND/AÐSEND

„En sá hlær best sem síðast hlær því að ég fékk þessar aukaverkanir og þurfti að pissa hér og þar á hálftíma fresti. Við þurftum líka að drekka alla vega þrjá til fjóra lítra af vökva á dag til þess að takast á við súrefnisskortinn sem hjálpaði ekki. Ég var því mjög fegin að sjá í tindinn við sólarupprás klukkan fimm eða sex um morguninn og átta mig á að við værum öll að fara að meika það! Þvílíkur sigur! Ég lifði svo lengi á þessari ferð, ég hreinlega flissaði af gleði þegar ég hugsaði um hana,“ segir Sólrún og brosir.

Sóla í góðum félagsskap í Everest ævintýrinu. MYND/AÐSEND

„Ef eitthvað getur mögulega toppað Kilimanjaro-ferðina er það ferðin í grunnbúðir Everest. En ég get eiginlega ekki borið þessar ferðir saman, þær voru báðar æðislegar. Það sem gerir þær helst ólíkar er auðvitað menningin, mannlífið. Tanzanía og Nepal er ekki það sama, þó að vissulega hafi maður séð mikla fátækt í borgunum og slæman aðbúnað. En það sem stendur upp úr er auðvitað glaðværð og gestrisni heimamanna. Það er gott að vera túristi í þessum löndum.“

Sigri hrósandi Sóla í grennd við grunnbúðir Everest. MYND/AÐSEND