Verkefnið felst í því að losa fataklefa leikskólans við plast og munu nemendur Erlu, sem stunda nám í fimmta bekk, hanna og sauma 58 fjölnota poka sem nýtast undir blaut föt í fataklefanum. Einn poka fyrir hvert barn leikskólans.

„Við byrjum á því að fara á fund á leikskólanum til þess að vita hvaða eiginleika pokinn þarf að hafa. Svo fara krakkarnir með þær upplýsingar í skólann, hanna pokann, sauma hann og gefa svo leikskólanum,“ segir Erla.

„Þetta vekur strax áhuga nemendanna og það er mikið gagn í því að tengja skólastarfið við raunveruleikann,“ segir Erla. „Við vorum öll orðin svo þreytt á því að vera að búa eitthvað til bara til að búa það til, bæði nemendurnir og kennarinn. Þau voru farin að skilja eftir hjá mér hluti á vorin, bara gleymdu þeim eða höfðu ekki áhuga. En með því að tengja kennsluna við nærumhverfi þeirra eykst áhuginn,“ bætir hún við.

Áhersla á umhverfisvernd

Í starfi sínu leggur Erla mikla áherslu á það að vera umhverfisvæn og mun verkefnið ekki einungis losa fataklefa leikskólans við plastið heldur er markmiðið einnig að kynna umhverfisvernd fyrir börnunum og það hvernig nýta má efni til endurvinnslu.

„Við saumum pokana úr verðlausum efnivið, úr efni sem fallið hefur til einhvers staðar, annað hvort í skólanum eða heima hjá nemendunum,“ segir Erla.

„Fyrsta verkefni krakkana í vetur var að gera poka úr bolum sem við fengum gefins frá Íslenskri erfðagreiningu. Þau kláruðu þá í fyrsta tímanum og ég sendi þau heim með bréf í pokanum þar sem foreldrar voru beðnir um að tína til hluti sem gætu nýst í starfinu hjá okkur en væru kannski ekki í notkun heima hjá þeim,“ segir Erla.

Fljótlega fóru pokarnir að berast til baka í skólann fullir af ýmiskonar efnivið sem nýtist vel við kennsluna. „Það er auðvitað sameiginlegt verkefni heimilis og skóla að ala upp góða samfélagsþegna og þetta er ein leið til þess að ala upp einstaklinga sem eru meðvitaðir um umhverfið og að reyna að kenna þeim þessa hugsun, að það sé hægt að gera flotta og merkilega hluti úr gömlum hlutum,“ segir Erla.

Gefur nemendunum val um verkefnin sem þau vinna

Erla tók upp á því nú í haust að breyta fyrirkomulaginu á kennslunni. Ásamt því að fara í samstarf með leikskólanum hefur hún gefið nemendunum meira stjórn á því hvernig verkefni þau vinna. „Þegar önnin byrjaði þá var ég ekki með kennsluáætlun þar sem stendur að allir í fjórða bekk eigi að sauma bangsa eða eitthvað slíkt heldur tók ég bara fund með nemendum og leitaði eftir hugmyndum hjá þeim. Svo hjálpaði ég þeim að móta hugmyndirnar sínar í samræmi við aðalnámskrá,“ segir hún.

„Ég setti bara reglur því auðvitað verður að vera rammi annars verður þetta bara kaos. En ég lagði upp með þrjár reglur, það að við værum að hugsa um umhverfið, við værum að endurnýta og að við værum að gera eitthvað gott fyrir samfélagið,“ segir Erla.

„Börn eru svo óvön því að fá að ráða en svona upplifa þau þetta þannig að verkefnið sé þeirra hugmynd og ástríðan fyrir verkefninu verður miklu meiri,“ útskýrir Erla.

„Krakkarnir í sjöunda bekk hafa til dæmis ákveðið að hann og sauma fjölnota poka og dreifa í verslanir hér í nágrenninu. Þau nota sínar hugmyndir og upplifanir til þess að skapa sem besta afurð. Passa að ólin sé nógu löng til að skella pokanum á öxlina, að hann geti borið þungar hluti og svo framvegis,“ segir Erla og bætir við að það hafi tekið hana langan tíma að þora að kenna eftir þessari aðferð.

„Þetta er fjórða árið sem ég kenni textíl hér í skólanum og loksins núna hef ég hugrekkið til þess að gera þetta svona. En það tekur tíma að kynnast starfi grunnskólana og því að kenna og umgangast börnin. Hér fæ ég frelsi frá mínum stjórnendum til þess að gera þetta svona og það er frábært,“ segir hún.

Skapandi hugsun er dýrmæt eign

Erla segir kennsluaðferðina ekki einungis kenna nemendunum textílmennt heldur efli hún einnig sköpun barnanna. „Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að það sé gaman í skólanum við lærum í gegnum leik og starf án þess að vera bara að leika okkur, en það sem ég er fyrst og fremst að kenna er skapandi hugun ekki endilega bara garðaprjón eða krossaumur, við þurfum að hugsa um framtíðina sem við vitum ekkert hvernig verður og hvað er alltaf gott að hafa í sínu farteski sem einstaklingur og framtíðarstarfsmaður einhverstaðar? Það er skapandi hugsun“

„Skapandi hugsun er mjög dýrmæt eign og það að geta haft hugrekki til að fá hugmynd og framkvæma hana. Þetta vona ég að þau læri hjá mér,“ segir Erla að lokum.