Aukaleikari í Game of Thrones segir Jason Momoa bera ábyrgð á einum um­talaðasta kaffi­bolla sem sést hef­ur í sjón­varpsþætti fyrr og síðar.

Aðdáendur Game of Thrones misstu sig þegar upp komst um heljarinnar framleiðslumistök í síðasta þætti af Game of Thrones. Í einni senunni sést í Starbucks kaffibolla á borði í hátíðarsal Winterfell, kastala Stark fjölskyldunnar.

Starbuck bollinn frægi.

HBO staðfesti að kaffibollinn hafi verið á borðinu fyrir mistök en ekki hluti af nýrri auglýsingaherferð Starbucks. Þátturinn var endurútgefinn á streymisveitu HBO þar sem búið var að fjarlægja bollann.

Netverjar vörpuðu fram ýmsum kenningum um hver ætti bollann og þar sem hann var beint fyrir framan leikkonuna Emiliu Clarke, sem lék drekadrottninguna Daenerys Targaryen, var hún talinn líklegur eigandi. Clarke hafnaði þessu í viðtali Jimmy Fallon og sagði bollann hafa verið á ábyrgð leikarans Conleth Hill, sem lék Varys í þáttunum

Andrew McClay, norður-írskur aukaleikari sem lék ýmsa riddara og dáta í fimmtu, sjöttu, sjöundu og áttundu seríu, segir í spjalli við fulltrúa stærstu aðdáendasíðu Krúnuleikanna að Jason Momoa hafi komið á settið með bollann og gefið Emiliu Clarke.

„Það voru svo margir að bulla um þetta atvik en ég hef alltaf sagt: Vitið þið hver bar ábyrgð á þessu? Helvítið hann Jason Momoa. Þetta er Khal Drogo að kenna,“ segir McClay.

„Hann mætti á settið með bolla með hunangi og sítrónu fyrir Emiliu því hún var alveg að drepast í hálsinum.“

Hér fyrir neðan má sjá senuna frægu.