Leikkonan Tinna Sverrisdóttir stofnaði heilsusetrið Andagift með vinkonu sinni, söngkonunni Láru Rúnarsdóttur. Tinna segist snemma hafa byrjað að pæla í andlegum málefnum.

„Ætli heiðarlega svarið sé ekki einfaldlega að vanlíðan hafi leitt mig út á þessa braut. Mér leið ekki nógu vel, ég þjáðist af miklum kvíða og meðvirkni. Þegar ég var fimmtán ára tók ég þá ákvörðun að prófa að mæta á tólf spora fund, mér til mikillar lukku. Ég vissi ekkert hvað þetta var en ég mætti inn í herbergi fullt af unglingum sem áttu svipaða sögu og ég og ég man að ég var skíthrædd en fann mjög fljótt að þetta væri staður sem hjálpaði mér að kynnast sjálfri mér betur, svo hef ég ekki hætt að mæta síðan. Þessi vinna hefur að sjálfsögðu haft gríðarleg áhrif á líf mitt og nú 17 árum síðar er kistillinn orðinn vel fullur af góðum ráðum og lífslexíum. Fyrir mér er þetta grunnurinn minn sem ég bý alltaf að og hefur aukið áhuga minn enn meira á andlegri heilsu og geðheilbrigðismálum,“ segir hún.

Rakst á vegg

Þegar Tinna var tvítug komst hún inn í leikaranám í Listaháskóla Íslands.

„Þá finn ég enn frekari þörf fyrir að huga að heilsunni minni til þess að halda sem bestu jafnvægi í gegnum námið og ég fer þá að iðka jóga og hugleiðslu af meiri krafti. Stuttu eftir að ég útskrifast sem leikkona keyri ég svo bókstaflega á vegg af streitu og veikist um leið. Þá tekur við tímabil þar sem mín andlega iðkun fer í fyrsta, annað og þriðja sæti. Ég gerði bókstaflega allt til þess að byggja mig upp aftur og byggja góðan grunn að því að ég geti starfað sem heilsuhraust leikkona á ný. Á þessum tíma ferðaðist ég mikið um heiminn, víkkaði sjóndeildarhringinn og prófaði alls konar hluti.“

Hvert er mikilvægi þess að huga að andlegri líðan á tímum sem þessum?

„Að mínu mati skiptir það öllu máli því andleg líðan okkar er grunnurinn að öllu hinu. Hvernig okkur líður dag frá degi segir til um það og hefur áhrif á það hvernig við komum fram við fólkið í kringum okkur, hvernig við hugsum um eigin líkama og hversu fær við erum í starfi okkar. Ég finn það að minnsta kosti með sjálfa mig að þegar ég huga að minni andlegu heilsu smitar það í alla króka og kima lífs míns og gerir mér einfaldlega auðveldara að njóta þess sem er.“

Dýrmætur tími

Tinna segist persónulega hafa upplifað þessa fordæmalausu tíma sem dýrmæta. Hún hafi orðið að læra að hægja aðeins á sér.

„Jafnvel þó að ég kenni hugleiðslu á ég það enn til að keyra mig í kaf í vinnu og öðru svo síðustu mánuðir hafa virkilega veitt mér betri yfirsýn, innri ró og tíma til að rækta sköpunarkraftinn minn. Í kjölfarið skapaðist hins vegar meira rými og tími fyrir leiklistina svo ég er búin að vera á fullu að leika allt árið sem er það skemmtilegasta sem ég geri, svo að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott,“ segir hún brosandi.

Í febrúar byrjar Tinna með námskeiðið Heima í þér.

„Það er fyrir alla þá sem vilja líða enn betur í eigin skinni. Námskeiðið er mjög einfalt og aðgengilegt að því leyti að þú þarft ekki að vera með neinn grunn í jóga eða hugleiðslu. Svo fer það fram á Zoom svo þú getir skapað þér huggulegt og umvefjandi rými heima hjá þér. Allir geta verið með, hvort sem þú býrð úti á landi eða erlendis. Að þessu sinni er þemað heilun og heildræn heilsa og mun ég kafa ofan í alla þá þætti sem þarf að huga að til þess að skapa heildstæðan og langvarandi árangur.“

Að mati Tinnu er þetta grunnurinn að því að öðlast jafnvægi til að geta látið drauma sína rætast.

„Í samfélaginu okkar er lögð gríðarleg áhersla á líkamsrækt sem er að sjálfsögðu mikilvægt en mér þykir afar áríðandi að hvetja fólk til þess að rækta alla partana af sér. Að læra að rækta huga, tilfinningar, líkama og sál.“ Allar frekari upplýsingar um námskeiðið Heima í þér er hægt að finna á andagift.is.