Ronja Björk Bjarnadóttir, tólf ára, var ráðgjafi við gerð bókar sem afi hennar, Sverrir Björnsson, skrifaði og er nýlega komin út. Bókin heitir Nýr heimur – Ævintýri Esju í borginni og fjallar um fjallastelpuna Esju og strákinn Mána. En fyrsta spurning til Ronju er:

Hvernig er að heita Ronja?

Alveg ágætt. Ég var samt ekki ánægð með það þegar ég var í leikskóla, því þá sögðu leikskólakennararnir nafnið mitt eins og rassálfarnir í Ronju ræningjadóttur.

Ronja ræningjadóttir er mikið náttúrubarn. Ert þú það líka?

Já, ég mundi alveg þora að segja það.

Kannski fjallastelpa eins og Esja í bókinni?

Pínu. Það er fjall fyrir ofan sumarbústaðinn okkar og mér finnst gaman að klifra þar upp og hafa kósí. Rétt hjá toppnum er hellir með fullt af mosa og fyrir ofan hann er hola, þar skín sólin inn.

Hjálpaðir þú afa þínum með bókina Nýr heimur?

Já, þetta er sko gamla náttsagan mín, frá því ég var í pössun hjá afa mínum, þá sagði hann mér þessa sögu oft. Það hefur alltaf verið best að koma til ömmu og afa út af sögunum.

Búa þau til sögurnar sjálf?

Já, afi sagði frænku minni söguna um Esju á undan mér svo hún er búin að vera til lengi og er alltaf góð.

Er Esja alltaf góð?

Maður gæti alveg hugsað sér það en stundum gerir hún eitthvað klaufalegt af sér.

Hvernig strákur er Máni?

Hann er fínn, hann hjálpaði Esju þegar hún átti enga vini og þá byrjaði hún að treysta. Hún hafði verið lögð í einelti uppi í fjallinu af því að hún gat sungið.

En hvað ætlar þú að gera í sumar?

Ég kenni sjálfri mér heljarstökk og kraftstökk á trampólíninu, leik við vinkonur mínar og ætla með þeim á hestanámskeið. Ætla líka að fara til Englands á ættarmót. Það er mitt fyrsta.

Hefur þú farið til útlanda áður?

Já, við förum árlega í skíðaferð og stundum til Tenerife. Svo hef ég farið kringum landið, það er líka gaman.

Hvað finnst þér fallegast að sjá á Íslandi?

Einu sinni fór ég í íshelli og þar voru grýlukerti bæði úr loftinu og gólfinu, það var sérstakt en mér finnst hraun sem er þakið mosa fallegast.