Gauti Eiríksson er grunnskólakennari, leiðsögumaður og sveitastrákur sem hefur afskaplega mikinn áhuga á íslenskri náttúru í allri sinni dýrð. Og hann veit það manna best, bæði úr starfi og leik, að til þess að vita sitt lítið af hverju um landið okkar verður að spyrja spurninga, en það er aðdragandinn að því að nálgast svörin sem leitað er að.

Núna í vikunni er að fara í búðir ný bók eftir kappann sem ber heitið Hvað veistu um Ísland? – og er það önnur bókin í flokknum, en bók með sama heiti kom út á síðasta ári og fékk góðar móttökur og sat á metsölulistum um tíma.

„Ég kenni náttúrufræði og stærðfræði í grunnskóla, en sú blanda ásamt óbilandi áhuga mínum á landafræði og jarðfræði hefur rekið mig áfram í þessu verkefni,“ segir Gauti og bætir því við að ekki saki í öllu þessu mengi að hann er sveitastrákur að vestan.

„Já, alinn upp í Reykhólasveit með útsýni yfir allan Breiðafjörð. Það situr í manni og hverfur ekki úr huganum,“ segir Gauti sem er fæddur og uppalinn á bænum Stað í fyrrgreindri sveit.

Spurningabækur hans um Ísland eru í þremur erfiðleikaflokkum, skipt upp eftir landshlutum og eru ríkulega myndskreyttar. Þær eru hugsaðar sem fræðsla og afþreying fyrir alla aldurshópa.

„Þetta eru bækur til að læra á landið,“ segir Gauti enn fremur. „Ég hef alla tíð haft óheyrilega mikinn áhuga á örnefnum og staðháttum og það skilaði sér í fyrri bókinni, en í þeirri sem er að koma út núna blanda ég sögu og fréttnæmum atburðum hvers staðar betur inn í skrifin.“

Og það liggur auðvitað beinast við að spyrja spurningamanninn í lokin hvaða staður á Íslandi sé fegurstur – og það stendur ekki á svari.

„Breiðafjarðareyjarnar, það er enginn spurning,“ segir Gauti Eiríksson.