Sýningin WERK: Labor Move eftir Huldu Rós Guðnadóttur stendur yfir í Hafnarhúsinu. Á sýningunni er vídeóverk og stór innsetning.

„Útgangspunktur verksins er þriggja rása kvikmyndainnsetning, Labor Move, sem er eitt kvikmyndaverk sýnt á þremur tjöldum. Kvikmyndaverkið er heimild um 48 tíma gjörning sem löndunarmenn úr Reykjavíkurhöfn frömdu í enn stærra sýningarrými í Leipzig í Þýskalandi árið 2016, en þar var um að ræða 19. aldar orkustöð sem breytt hafði verið í listamiðstöð,“ segir Hulda Rós. „Verkið var frumsýnt í sama sal í Leipzig tveimur vikum seinna en hefur einnig verið sýnt í Prag og Berlín. Það að staðsetja verkið inni í nýrri innsetningu fyrir A-sal Listasafns Reykjavíkur er eins konar heimkoma fyrir verkið.

Risastóra innsetningin á sýningunni er búin til úr þúsundum flutningskassa sem flestir eru tómir. Kassarnir voru settir saman af starfsmönnum í móttöku safnsins og nýtt kvikmyndaverk var búið til sem sýnir það verk á nærgöngulan hátt. Kassi eftir kassi er brotinn og límdur saman í endalausri endurtekningu en samt sem áður fer áhorfandi að koma auga á smáatriðin í því hvernig hver starfsmaður strýkur límbandið, grípur næsta kassa og svo framvegis.

Þriðja kvikmyndaverkið er svo heimildarmynd í fullri lengd, Keep Frozen, sem einnig var tekin upp í Reykjavíkurhöfn árið 2014 þegar löndunarmenn voru ennþá með vinnuaðstöðu þar.“

Eins konar hugljómun

Hulda Rós býr í Berlín en nýtt gallerí þar í borg, Gallery Gudmundsdottir, selur verk hennar og kemur þeim í dreifingu á alþjóðlegum listmarkaði. Galleríið var stofnað í fyrrasumar af Guðnýju Guðmundsdóttur og eitt helsta markmiðið er að koma kvenlistamönnum á framfæri.

„Það sem ég hef lært eftir þennan rúma áratug sem ég hef starfað í fullu starfi sem myndlistarmaður í Berlín er að það kemur best út að setja egg sín í margar körfur. Hingað til hef ég ekki haft mikinn áhuga á að beina orku minni í þá átt sem þarf til að selja á markaði. Ég hef aðallega einbeitt mér að stórum sýningum og því að búa til verk sem byggja á sterkum grunni en eru erfiðari í sölu. Þessu hef ég getað haldið úti með hjálp styrkja og listamannalauna, með því að taka að mér skrif og kennslu, en einungis að litlu leyti með annarri fjárhagslegri innkomu. Þetta hefur aðeins farið að breytast undanfarin ár þegar ég hef verið að taka þátt í fleiri launuðum sýningarverkefnum,“ segir Hulda Rós. „Þegar ég tók þátt í vinnustofudvöl í Künstlerhaus Bethanien í Berlín fyrir þremur árum varð ég fyrir einhvers konar hugljómun: að það gæti verið áhugavert að vinna verk einnig út frá því að koma þeim fyrir á heimilum fólks og í einstaklingssöfnum.“

Á sýningu Huldu Rósar í Hafnarhúsinu er vídeóverk og stór innsetning.

Dansarar í verksmiðjum

Hulda Rós er að vinna að listrannsóknarverkefninu S-I-L-I-C-A. Spurð um það segir hún: „WERK – Labor Move í Hafnarhúsinu er eitt af mörgum listaverkum sem hafa orðið til í langtíma listrannsóknarverkefni sem ég hef haft hugann við síðan árið 2010. Verkefnið hófst með þeirri tilfinningu að ég yrði að fara til Bíldudals og endaði sem rannsókn á höfnum og búsetu við sjávarsíðuna víðs vegar í hafnarborgum og -bæjum á Norður-Atlantshafinu. Ég var orðin þekkt sem einhvers konar hafnarlistamaður og var boðið til lítils bæjar í Suðaustur-Ástralíu að rannsaka höfn þar. Ein aðalútflutningsvaran þar var silicon dioxide sandur sem er kísil-súrefnisblanda en á Íslandi er slík efnablanda brædd niður í kísilmálm í verksmiðju PCC á Bakka við Húsavík með hjálp rafmagns frá Þeistareykjum. Mér finnst mjög áhugavert hvernig framleiðsla á efnum, hlutum og hráefnum er alþjóðlegt kerfi þar sem þessi efni, hlutir og hráefni ferðast fram og til baka um höf heims í risastórum flutningaskipum.“

Verk úr þessu rannsóknarverkefni hafa verið sýnd sem hluti af tuttugu ára afmælissýningu Felleshus í norrænu sendiráðunum í Berlín og í Loft í Ansbach í Þýskalandi. „Ég gerði einnig kvikmyndaverk og sýndi á lofti í kapellu hér í Berlín. Næst langar mig til að búa til kvikmyndaverk í fullri lengd þar sem áhersla verður á að nálgast viðfangsefnið á skynrænan hátt í gegnum samstarf við dansara, danshöfund og tónskáld. Ég vonast til að geta komið með dansara inn í verksmiðjurnar á Þeistareykjum og PCC á Bakka strax í sumar og tekið meira upp.“

Verk sett í nýtt samhengi

Hulda Rós verður þátttakandi í hópsýningunni Swimming Pool í sumar. Þar mun hún sýna verkið The Shipyard Paintings. „Það er röð ellefu málverka sem máluð voru í slippnum af verkamanni þar á álplötur með málningarefni úr slippnum. Myndbygging var eftir mínum fyrirmælum, sem og val á stærð og þykkt á álplötunum. Blár litaskalinn var ákveðinn í samstarfi við verkstjóra í slippnum en þar eru einnig til aðrir litir eins og appelsínugulur. Allt annað var í höndum verkamannsins sem málaði myndirnar eftir minni pöntun.

Hugmyndin að sýningunni er innblásin annars vegar af kvikmyndinni A Bigger Splash eftir Luca Guadagnino frá 2015 og hins vegar málverkinu A Bigger Splash eftir David Hockney frá 1967 sem er í eigu Tate Britain í London,“ segir Hulda Rós. „Það sem er áhugavert við að taka þátt í hópsýningum miðað við einkasýningu er að einstök verk eru tekin úr stórum innsetningum sem ég hef gert og sett inn í nýtt samhengi og orðræðu sem sýningarstjórinn hefur áhuga á. Merking er alltaf samspil milli þess sem listamaður er að hugsa, þess sem sýningarstjóri hefur áhuga á og þeirrar reynslu og þekkingar sem áhorfandi ber með sér. Hún er í sífelldu flæði rétt eins og hafið sjálft.“