Ég er í grunninn landsbyggðarkona, fædd og uppalin á Húsavík. Ég bjó í sextán ár í Aðaldal og kom hérna suður árið 2007,“ segir Hulda. „Það var eiginlega ekki fyrr en þá sem ég fattaði hvað ég væri með mikla þörf fyrir að vera tengd náttúrunni. Þegar ég bjó út í miðju Aðaldalshrauni hugsaði ég ekkert sérstaklega um mig sem útivistarmanneskju. Ég var úti ef þannig verkast vildi og tók þátt í því sem var að gerast en alvöru útivistaráhuginn kviknaði eiginlega ekki fyrr en ég flutti suður.“

Ekki hvort heldur hvaða fjall

Hulda kom ekki einsömul í borgina. „Ég kom með hest með mér að norðan og ætlaði að vera hestakona í borginni en fann strax að sú binding hentaði mér ekki. Þannig að ég seldi hann og fór að hjóla og ganga á fjöll og þangað sæki ég orkuna mína,“ skýrir hún frá.

„Eftir því sem er meira að gera hjá mér þeim mun meiri þörf hef ég fyrir að fara á fjöll og þeim mun meira fer ég á fjöll. Þegar ég hringi í börnin mín spyrja þau ekki: „Ertu á fjalli?“, þau spyrja bara: „Á hvaða fjalli ertu?“, segir Hulda og skellir upp úr.

„Ég var mjög mikið ein í þessari útivist til að byrja með en svo kynntist ég manninum mínum 2011 og við erum svo heppin að deila þessu áhugamáli, þannig að við erum mjög mikið í þessu saman.“

Njóta en ekki þjóta

Þá tilheyrir hún einnig gönguhóp. „Ég á mér mjög þéttan gönguhóp, fámennan og góðmennan, sem er borinn uppi af konum að norðan sem eru fluttar á mölina. Við köllum okkur Fjallkonur og göngum yfirleitt tvisvar í viku saman. Við leyfum körlunum stundum að koma með og þá verða þeir að gangast undir það að vera einir af Fjallkonunum. Þeir eru velkomnir en þeir eru ekki gildir félagar þótt þeir fái að fljóta með.“

Markmiðið er skýrt. „Þetta er hópur sem fer til að njóta en ekki þjóta og það er eiginlega áherslan hjá okkur. Ég er mjög lítil keppnismanneskja, ég hef ekki þörf fyrir að vera fyrst á toppinn og ég er ekki hraðskreiðust eða í besta forminu en markmiðið hjá mér er að fara og tengja mig í náttúrunni.“

Annað sem heillar Huldu er ljósmyndun. „Ég tek mikið af myndum og nota myndavélina oft sem afsökun fyrir að stoppa og ná andanum og tek þá góðar myndir. Ég flétta svolítið saman áhuga minn á ljósmyndun og útivistinni. Og bara náttúrunni, ég er alltaf að tengjast henni meira, eins og þessi tími sem er núna, trén að byrja að bruma og maður sér lífið kvikna, ég bara tími ekki að missa af einum einasta degi í útivistinni því ég er svo hrædd um að missa af einhverju.“

Allar árstíðir í uppáhaldi

Hulda segir allar árstíðirnar jafn áhugaverðar. „Mér finnst rosalega gaman að sjá lífið kvikna á vorin og ótrúlega fallegt þegar trén byrja að fella laufin á haustin. Það er líka einstaklega fallegt þegar það er nýfallinn snjór yfir öllu og ég á fyrstu sporin í snjónum. Allar árstíðir hafa sinn sjarma, mér er alveg sama hvaða árstíð er og það breytir engu um það hvort mig langi út eða ekki.“

Lýsingar Huldu eru hrífandi. „Mér finnst ótrúlega gaman í vetrargöngum, að fara af stað snemma á morgnana, sjá ekki neitt og ganga svo inn í birtuna. Við gerum það yfirleitt Fjallkonur, förum af stað eldsnemma á laugardagsmorgnum með höfuðljós þegar það er ennþá kolniðamyrkur og svo horfir maður á hvernig landið vaknar og birtir og allt í einu er kominn tími til að setja höfuðljósið í bakpokann og það er kominn dagur. Svo kemur maður heim þegar allir eru að vakna og allur dagurinn fram undan. Þetta og sumarkvöldin eru mesti sjarminn.“

Náttúruperlur allt í kring

Hulda býr í návígi við Heiðmörk og nýtir hana vel. „Við erum svo heppin að búa í jaðrinum á Heiðmörkinni svo við getum bara reimað á okkur gönguskóna og farið út. Við þurfum engan bíl og ekki neitt þannig að við nýttum þetta COVID-tímabil aðallega til að labba í nágrenninu, allt upp í tuttugu kílómetra í síðdegisgöngu í Heiðmörkinni.“

Náttúruperlurnar eru margar hverjar í mikilli nálægð. „Svo er mikið af fjöllum hér allt í kring, Bláfjöllin, Hengilssvæðið og Reykjanesið,“ segir Hulda. „Þú þarft alls ekki að fara langt til þess að komast í perlur. Það eru staðir hérna eins og Sveifluháls, Vífilsfell og Hengill og náttúrulega öll Esjan endilöng sem býður upp á svæði sem eru mjög lítið sótt.“

Myndrænir göngutúrar

Eftir að samkomubannið skall á fór Hulda að leita leiða til þess að sameina skemmtun og útivist. „Við vorum aðallega að labba innanbæjar þar sem fólk var beðið um að vera ekki að fara á fjöll svo það myndi ekki slasa sig. Þá fórum við að velta fyrir okkur hvort hægt væri að breyta aðeins til og gera eitthvað skemmtilegt. Við fórum í að úthugsa línur til að ganga eftir og ég sat þá yfir kortum á kvöldin og reyndi að finna leiðir þar sem við gætum búið til fugla eða bíla eða eitthvað annað með göngumynstrunum okkar.“

Það var sem nýr heimur hefði opnast. „Það var ótrúlega skemmtilegt og við fórum þá leiðir sem við hefðum aldrei farið annars. Við fundum til dæmis göngumynstur upp í Salahverfi í Kópavogi sem er alveg eins og fugl, með stél, haus, gogg og allt, bara með því að labba eftir ákveðnum götum. Þannig að ég er komin með mikið munsturnæmi þegar ég horfi á götukortin núna.“ segir Hulda.

Hálendi Íslands er í miklu eftirlæti og hyggst Hulda nýta sumarið til að kanna það en hún og maður hennar keyptu svokallaðan gistibíl í haust. Hún ítrekar að þetta sé ekki húsbíll, heldur bara lítill bíll með plássi fyrir eitt hjónarúm, sem þó komist víða. „Við höfum aldrei verið á fjórhjóladrifnum bíl sem við höfum treyst til að fara á hálendið en þetta er bíll sem kemst alla helstu fjallvegi, enginn trukkur samt. En nú ætlum við að fara á staði, bæði inn að Fjallabaki, í Öskju og Kverkfjöll, staði sem við höfum ekki komist á og getum ekki beðið eftir að komast í þá reisu.“

Þegar Hulda er spurð að því hvort hún eigi sér uppáhaldsstað stendur ekki á svörum. „Fjallabak, ekki spurning. Rauðufossafjöll og Grænihryggur eru líka í uppáhaldi af því sem ég hef séð. Ég hef alltof lítið séð af hálendinu enn en þetta eru þeir staðir sem ég hef oftast farið á þar Ég elska þessa staði. Svo finnst mér ótrúlega heillandi að skoða svæði í Henglinum, hann er svo margbreytilegur og er líka í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Ein leiðin fer upp, hin niður

Blaðamaður spyr Huldu hvort hún eigi sér eitthvert markmið tengt útivistinni. „Það er eiginlega bara að ganga alveg fram að andláti. Ég er ákveðin í því, hvenær sem það verður. Ég ætla ekki að verða gömul fyrir aldur fram þannig að ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til að halda mér heilbrigðri. Ég er ekki týpan sem fíla mig inni á líkamsræktarstöðvum þannig að þetta er sú leið sem ég á til þess að viðhalda heilsunni.“

Mikið sé í húfi. „Ég veiktist alvarlega fyrir ellefu árum og fékk að reyna hvernig það er að missa heilsu, og ég er mjög ákveðin í því að gera það sem ég get til að missa hana ekki aftur. Ef maður hugsar ekki um heilsuna þá er eins og maður sé að labba upp rúllustiga þegar hann er á fleygiferð niður í móti. Þú þarft að labba hraðar upp heldur en rúllustiginn fer með þig niður,“ segir Hulda afdráttarlaus.

„Ég hef haft það viðhorf að ef lífsgæði mín munu á einhverjum tímapunkti takmarkast vegna veikinda aftur þá vil ég ekki geta kennt sjálfri mér um það. Þegar maður er búinn að standa á brún og fatta að það eru tvær leiðir, önnur er upp og hin niður, þá er þetta rosalega einfalt. Maður vill fara upp“