Bandaríska leikkonan Kelly Preston er látin, 57 ára að aldri, eftir tveggja ára baráttu við brjóstakrabbamein.

John Travolta, eiginmaður hennar, greindi frá andlátinu á samfélagsmiðlinum Instagram í gær: „Hún háði hetjulega baráttu með ást og stuðningi svo margra.“

Preston er hvað þekktust fyrir leik sinn í kvikmyndunum Jerry Maguire og Twins. Þar að auki birtist hún nokkrum sinnum á hvíta tjaldinu við hlið eiginmanns síns, síðast í mafíósamyndinni Gotti frá árinu 2018. Hún hafði einnig starfað sem fyrirsæta.

Hjónin höfðu verið gift í yfir 28 ár og hafa átt saman þrjú börn, þau Jett, Ellu og Benjamin. Jett Travolta lést árið 2009, þá einungis 16 ára gamall, þegar hann fékk flog í fríi fjölskyldunnar á Bahamaeyjum.

Fjölmargir þekktir einstaklingar hafa vottað fjölskyldunni samúð sína og sent hlý skilaboð á samfélagsmiðlum.

John Travolta segist ætla að taka sér tíma til að vera til staðar fyrir börnin sín á þessum erfiðu tímum.

Fréttin hefur verið uppfærð.