Kattaskráin, sem nú er orðin rúmlega tveggja ára gömul, hefur blásið til landsátaks í skráningu katta á Íslandi.

Kattaskráin var stofnuð árið 2019 af dýravininum Guðmundi Norðdal til þess að aðstoða kisur að komast aftur heim ef þær villast frá heimahúsum. Skráin inniheldur myndir og lýsingar af fjölda katta sem eru auglýstar ef eigandinn tilkynnir að köttur hafi týnst, auk þess sem hægt er að leita að köttum eftir hverfum ef komið er auga á villta kisu.

Íslenska kattavinasamfélagið hefur tekið miklu ástfóstri við Kattaskrána síðustu tvö ár og að sögn Guðmundar hafa hundruðir kisa komist aftur heim til sín vegna auglýsinga og tilkynninga sem hafa farið fram í gegnum gagnagrunninn. Guðmundur fer sjálfur í gegnum póstana sem berast Kattaskránni en skráin er einnig í tengslum við Kattholt auk þess sem lögreglan hefur nýtt sér þjónustuna.

Aðspurður segir Guðmundur það geta tekið á að vera í svo stöðugum samskiptum við fólk sem er i tilfinningalegu uppnámi vegna hvarfs gæludýranna sinna. „Það getur verið ofsalega sárt, en ég herði mig nú bara.“

Kattaskráin er fyrsti gagnagrunnur fyrir heimiliskisur sinnar tegundar í heimi, en Guðmundur segir að hún hafi vakið athygli utan Íslands. Meðal annars hafi gestir frá Þýskalandi hrósað þjónustunni og hafi hug á að koma á fót svipuðum gagnagrunni fyrir ketti í Hamborg.