Það var heldur betur rífandi stemning sem mætti fólki sem boðað var í bólu­setningu í Laugar­dals­höllinni í morgun. Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, var bólu­settur með bólu­efni AstraZene­ca á níunda tímanum en þar að auki þeytti plötu­snúðurinn Daddi Disco skífum og spilaði nokkra af vinsælustu slögurum níunda ára­tugarins.

„Þetta eigin­lega byrjaði þannig að mín kyn­slóð er nú svona þekkt fyrir að hafa gaman að hlutunum,“ segir Daddi Disco sem hefur staðið vaktina á mörgum af þekktustu skemmti­stöðum Reykja­víkur síðast­liðna þrjá ára­tugi, þar á meðal Hollywood, Broa­dway, Apó­tekinu, Thor­vald­sen og Peter­sen svítunni.

Daddi verður sjálfur bólu­settur klukkan tólf í dag og segir hug­myndina að því að þeyta skífum í Laugar­dals­höll hafa komið upp þegar hann var boðaður í bólu­setningu.

„Hug­myndin kom upp og við ætluðum bara að vera hér fyrir utan, svo þegar starfs­fólkið hérna heyrði af því að það ætti að spila músík þá vildu þau endi­lega fá hana inn. Svo komum við bara og skoðuðum að­stæður og sáum í hendi okkar að það væri lang­skemmti­legast að gera þetta bara hér,“ segir Daddi.

„Hér eru að koma ár­gangar sem hafa alist upp hjá mér í tón­list, þannig ég er bara að spila músíkina okkar,“ segir Daddi Disco.
Fréttablaðið/Ernir

Stærsta og lengsta DJ gigg ársins

Daddi er sjálfur fæddur árið 1966 og er því hluti af X-kyn­slóðinni sem byrjaði að fara út á lífið á níunda og tíunda ára­tug síðustu aldar. Hann segist búast við því að margir af þeim sem verði bólu­settir í dag hafi dansað við tón­listina hans áður.

„Hér eru að koma ár­gangar sem hafa alist upp hjá mér í tón­list, þannig ég er bara að spila músíkina okkar. Það þarf ekkert alltaf að vera leiðin­legt, það má alveg vera gaman,“ segir Daddi.

Daddi ætlar að standa vaktina í dag frá 9 til 4 og segir það vera eitt lengsta DJ gigg sem hann hefur tekið að sér. Hátt í 14 þúsund manns verða bólu­settir með bólu­efni AstraZene­ca í dag þannig ljóst er að um er að ræða eina stærstu tón­leika sem haldnir hafa verið hér á landi frá því að heims­far­aldurinn hófst.

„Þetta er náttúr­lega svo­lítið skrýtin stemning, fólk er svona pínu ner­vös og allt það. En tón­list getur alltaf breytt öllu þannig það er gaman að geta að­eins lyft fólki upp,“ segir Daddi og bætir við að hann hafi verið mjög spenntur fyrir því að fá að spila aftur í Laugar­dals­höll.