Katrín Midd­let­on og Vil­hjálmur Breta­prins settu deilur sínar við her­toga­hjónin Harry og Meg­han til hliðar í til­efni dagsins en Meg­han á 41 árs af­mæli í dag.

Hjónin hafa um ára­bil átt í nokkuð stirðu sam­bandi við Meg­han og þá Harry vegna þessa. Vil­hjálmur er meðal annars sagður hafa spurt Harry í upp­hafi sam­bands þeirra hvort hann væri raun­veru­lega til í þetta og síðan var Meg­han sögð hafa grætt Katrínu í að­draganda brúð­kaups síns 2018.

Sjálf sagði Meg­han í við­tali hjá Opruh Win­frey í fyrra að það hefði reyndar verið öfugt; Katrín hefði grætt hana. Síðan hafa bresk götu­blöð keppst við að flytja fregnir af því að bræðurnir væru varla í tal­sam­bandi.

„Óskum her­toga­ynjunni af Sus­sex til hamingju með daginn!“ skrifa hjónin á opin­bera sam­fé­lags­miðla sína. Þá birtu Karl og Kamilla jafn­framt hamingju­óskir á sínum sam­fé­lags­miðlum en bresk götu­blöð hafa keppst við að flytja fréttir af ó­sætti milli feðganna.

Harry er sagður hafa neitað Karli um upp­lýsingar um hvað verði sagt í nýrri ævi­sögu prinsins sem væntan­leg er í verslanir síðar á árinu. Þá var því lýst í annarri bók hvernig Kamilla hefði grínast með hára­lit dóttur þeirra Lili­bet á rasískan hátt.