Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra byrjaði daginn á því að heimsækja Dóru Ólafsdóttur og óska henni til hamingju með að hafa náð hærri aldri en nokkur annar hér á landi. Katrín greinir frá þessu á Facebook.

Líkt og fram hefur komið er Dóra orðin 109 ára og 160 daga gömul. Jensína Andrés­dóttir átti metið áður en hún lést vorið 2019, 109 ára og 159 daga gömul. Dóra er áttundi elsti íbúi á Norður­löndum, elst er sænsk kona sem er rúmum fjórum mánuðum eldri.

Einn Ís­lendingur hefur náð lengri aldri, það er Guð­rún Björg Björns­dóttir sem flutti með for­eldrum sínum frá Vopna­firði til Vestur­heims og var orðin 109 ára og 310 daga þegar hún lést, í ágúst 1998, á dvalar­heimilinu Betel í Gimli í Manitoba í Kanada. Dóra getur bætt það met í maí á næsta ári.

Dóra starfaði sem tal­síma­kona hjá Land­símanum á Akur­eyri í rúma fjóra ára­tugi, en eigin­maður hennar, Þórir Ás­kels­son, var sjó­maður og segla­saumari. Hann var á­huga­maður um ís­lenskt mál og vinur Davíðs Stefáns­sonar skálds. Þórir lést í desember árið 2000, 89 ára gamall.

Katrín spurði Dóru út í langlífið. „Sem sérstök áhugamanneskja um langlífi spurði ég hana hvert leyndarmálið væri á bak við að hafa lifað svona lengi. Dóra sagði mér að hún léti tóbakið og áfengið í friði, hefði gengið mikið, farið í sund og síðast en ekki síst lifað rólegu lífi og alla tíð haft gaman af að lesa,“ skrifar Katrín á Facebook. „Við getum öll haft þetta í huga á aðventunni.“