Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra byrjaði daginn á því að heimsækja Dóru Ólafsdóttur og óska henni til hamingju með að hafa náð hærri aldri en nokkur annar hér á landi. Katrín greinir frá þessu á Facebook.
Líkt og fram hefur komið er Dóra orðin 109 ára og 160 daga gömul. Jensína Andrésdóttir átti metið áður en hún lést vorið 2019, 109 ára og 159 daga gömul. Dóra er áttundi elsti íbúi á Norðurlöndum, elst er sænsk kona sem er rúmum fjórum mánuðum eldri.
Einn Íslendingur hefur náð lengri aldri, það er Guðrún Björg Björnsdóttir sem flutti með foreldrum sínum frá Vopnafirði til Vesturheims og var orðin 109 ára og 310 daga þegar hún lést, í ágúst 1998, á dvalarheimilinu Betel í Gimli í Manitoba í Kanada. Dóra getur bætt það met í maí á næsta ári.
Dóra starfaði sem talsímakona hjá Landsímanum á Akureyri í rúma fjóra áratugi, en eiginmaður hennar, Þórir Áskelsson, var sjómaður og seglasaumari. Hann var áhugamaður um íslenskt mál og vinur Davíðs Stefánssonar skálds. Þórir lést í desember árið 2000, 89 ára gamall.
Katrín spurði Dóru út í langlífið. „Sem sérstök áhugamanneskja um langlífi spurði ég hana hvert leyndarmálið væri á bak við að hafa lifað svona lengi. Dóra sagði mér að hún léti tóbakið og áfengið í friði, hefði gengið mikið, farið í sund og síðast en ekki síst lifað rólegu lífi og alla tíð haft gaman af að lesa,“ skrifar Katrín á Facebook. „Við getum öll haft þetta í huga á aðventunni.“