Leik- og söngkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur samið við Þjóðleikhúsið. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á sviði undanfarin ár og segja má að hún hafi skotist upp á stjörnuhimininn í sýningunni Ellý í Borgarleikhúsinu þar sem hún hefur starfað undanfarin ár. Þar áður lék hún hjá Þjóðleikhúsinu, m.a. í hinni geysivinsælu sýningu Í hjarta Hróa Hattar. Auk leiklistarnáms þá stundaði Katrín Halldóra söngnám, bæði hér á landi og í Danmörku.

Á meðal verkefna hennar á næsta leikári verða stórt hlutverk í söngleiknum Sem á himni sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir og þá mun hún takast á við verk eftir Caryl Churchill, Ást og upplýsingar, sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir, í þýðingu Auðar Övu Ólafsdóttur.