Katrín hafði strax sterka skoðun á því hvernig eldhús hana langaði í. Hugurinn leitaði til uppvaxtaráranna og minninga frá eldhúsinu heima. Katrín segir að hjarta heimilisins slái í eldhúsinu og þar eigi fjölskyldan iðulega sínar bestu samverustundir.

„Hjarta heimilisins slær í eldhúsinu, þar borðum við saman og spjöllum um daginn og veginn,“ segir hún. Fyrsta sem vekur eftirtekt þegar inn kemur er eldhúsinnréttingin sem fangar augað og er mikil nostalgía, það er eins og við séum komin aftur til fortíðar, gamla tímans.

„Eldhúsinnréttingin var teiknuð af vinkonu minni, Evu Huld Friðriksdóttur, þegar við fluttum inn og var smíðuð fyrir okkur. Ætlunin var að tengja við eldhúsinnréttingar sjötta áratugarins enda er húsið byggt þá og ég alin upp í eldhúsi og íbúð frá þeim tíma.“

Litapallettan í innréttingunni er sérstaklega skemmtileg, er einhver saga bak við hana?

„Þetta var nú bara ákvörðun – að meginliturinn væri hvítur og bjartur en svo kæmu aðeins hressari litir við sögu enda höfum við gaman af litum.“

Afslappað og heimilislegt

Katrín leggur mikið upp úr því að hafa heimilið hlýlegt og öllum líði vel. „Ég held að ég sé nú frekar heimilisleg og afslöppuð. Vil gjarnan hafa snyrtilegt í kringum mig, nýta hlutina vel og hef gaman af litum í umhverfinu.“

Flestir hlutir heimilisins eiga sér sögu og eldhúsið prýða margir munir sem bæði ylja og rifja upp góðar minningar hjá Katrínu. „Þarna er til dæmis kaffikanna frá ömmu og afa, ketill sem mamma og pabbi fengu í brúðargjöf og tekanna sem vinkona mín hélt á heim frá París af því að mér fannst hún svo bráðnauðsynleg. Mikil ást á bak við þetta allt saman.“

Eldhúsinnréttingin var teiknuð af vinkonu Katrínar, Evu Huld Friðriksdóttur, þegar fjölskyldan flutti inn og var smíðuð fyrir þau eftir hugmyndum húsmóðurinnar.

Er einhver hlutur í eldhúsinu sem þú heldur meira upp á en annan?

„Erfitt að segja. Góðir pottar eru auðvitað gulls ígildi því að matseldin verður skemmtilegri og svo er pressukannan okkar í stöðugri notkun,“ segir Katrín.

Á ísskápnum er fjöldi segla sem endurspegla mörg góð ráð og góðar lífsreglur. Katrín segir að það hafi ekki verið samantekin ráð að safna seglunum. „Eiginlega safna ég þeim ekki en þetta er samt 20 ára seglasafn. Þetta er svona eitthvað sem bara gerist. Nema auðvitað Abba-seglarnir sem voru keyptir eftir góða heimsókn á Abba-safnið í Stokkhólmi.“

Borðkrókurinn er með stólum í stíl við innréttinguna. Þarna hafa eflaust mörg áhugaverð málefni verið rædd.

Leyndarmál Katrínar

Áttu þér eitthvert leyndarmál í eldhúsinu sem þú ert til í að afhjúpa?

„Það er auðvitað hillupappírinn í skápunum, þekki engan annan sem er með jafn mikið dálæti á hillupappír og hann er líka mjög í anda sjötta áratugarins,“ segir Katrín og hlær. Katrínu finnst jafnframt ómissandi að hafa mat í hverju eldhúsi. „Hvernig væri eldhús án matar?“ segir hún og brosir. Stóra leyndarmálið hjá forsætisráðherra er líka afhjúpað. „Öll bestu samtölin fara fram í eldhúsum þessa heims, held ég,“ segir Katrín að lokum. ■

Að sjálfsögðu eru bækur í eldhúsinu hjá Katrínu og ekki endilega matreiðslubækur.
Falleg kanna sem Katrín heldur upp á.
Skemmtileg blanda af litum sem kemur vel út.